Næsta mynd kvikmyndaklúbbsins Svartra sunnudaga í Bíó Paradís er hin klassíska cult mynd Carnival of Souls frá árinu 1962.
Í frétt frá Bíó Paradís er myndin sögð afar sérstök: „Myndin er afar sérstök. Flokkast sem hryllingsmynd en býr yfir sérstöku andrúmslofti sem ekki ómerkari menn en David Lynch hafa sótt sér innblástur í. Hún segir frá konu sem er næstum drukknuð en kemst á þurrt land eftir þriggja tíma leit björgunarmanna. Hún ræður sig sem kirkjuorganista í litlum bæ í Utah og einkennilegir hlutir fara að gerast.“
Sjáið stikluna hér fyrir neðan:
Myndina gerði heimildamyndagerðarmaðurinn Hark Harvey fyrir mjög litla peninga og fékk hún mjög takmarkaða dreifingu framanaf og var talin B-mynd. Það þýddi að bílabíóin voru hennar helsti sýningarstaður og eftir því sem leið á fór hún að afla sér fylgis hjá afmörkuðum hópum.
Nýtt plakat
Sérstök plaköt eru sérhönnuð fyrir hverja mynd sem Svartir sunnudagar sýna, og plakatið hér að neðan, fyrir Carnival of Souls, hannaði myndlistarmaðurinn Kolbeinn Hugi Höskuldsson:
Myndin verður sýnd í Bíó Paradís sunnudagskvöldið 9. desember kl. 20.