Kidman segir Big Little Lies stóra á ferlinum


Aðdáendur HBO sjónvarpsþáttaraðarinnar Big Little Lies bíða nú spenntir eftir annarri þáttaröðinni, sem er á leiðinni. Nicole Kidman, ein af aðalleikkonunum, segir að þættirnir séu eitt þeirra verkefna hennar sem notið hefur hvað mestrar velgengi af öllum þeim sem hún hefur tekið sér fyrir hendur um dagana.

Dramatískt augnablik.

Í samtali við breska dagblaðið Sunday Telegraph segir Kidman, sem er 51 árs, að hún hafi aldrei leikið í neinu sem náð hafi jafn miklum vinsældum um allan heim, og það sem hafi ráðið úrslitum um að ákveðið var að framleiða aðra þáttaröð, voru háværar kröfur aðdáenda þáttanna.

Big Little Lies er byggð á samnefndri bók eftir rithöfundinn Liane Moriarty, og segir frá sex mæðrum í Kaliforníu og átökum sem myndast á milli þeirra.
Nicole leikur Celeste Wright í þáttunum, tveggja barna móður sem er í ofbeldissambandi.

Þó Kidman sé Óskarsverðlaunaleikkona, og hafi leikið í fjölda vinsælla kvikmynda í gegnum tíðina, þá segir hún við dagblaðið: „Ég hef aldrei leikið í neinu sem hefur náð jafn mikilli útbreiðslu alþjóðlega.“

Með henni í helstu hlutverkum eru Reese Witherspoon, Laura Dern, Zoe Kravitz og Shailene Woodley en að sögn Kidman hafa þær orðið góðar vinkonur í þáttunum. „Ég hef aldrei lent í því áður. Það er dásamlegt á þessum stað á ferli mínum að gera eitthvað nýtt.“

Upphaflega átti Big Little Lies einungis að vera ein þáttaröð, en Nicole segir að áhugi aðdáenda, hafi orðið til þess að önnur þáttaröð var gerð.
„Hún varð að miklu leiti til vegna aðdáendanna, og þeirri löngun þeirra að sjá þessar persónur halda áfram að vera til,“ sagði hún.

Önnur þáttaröð Big Little Lies mun halda áfram þar sem frá var horfið í fyrri seríunni, og sýna hvernig konurnar takast á við áföll, en þær hafa hingað til þurft að glíma við heimilisofbeldi, nauðgun og andlát.

Þrátt fyrir áhugann, er þó ekki talið að þriðja þáttaröð verði gerð.
Kidman telur að erfitt yrði að kalla saman leikaraliðið að nýju, þó svo að allir vildu halda áfram. Þá segir framleiðandinn David E. Kelley að sagan verði fléttuð haganlega saman í annarri þáttaröð, og endi bundinn þar á.
Á blaðamannafundi hjá Television Critics Association sagði Kelley: „Við höfum engar slíkar áætlanir. Við erum sátt við hvernig önnur þáttaröðin endar, þannig að við látum líklega þar við sitja.“

Reese, sem leikur Madaline Mackenzie, virtist þó ekki sannfærð: „Þú sast hérna og sagðir það sama síðast!“

Streep vildi vera með

Þættirnir byrja í sýningum á HBO í júní og við leikaraliðið bætist engin önnur en hin margfalda Óskarsverðlaunaleikkona Meryl Streep, en hún leikur Mary Louise, konu sem er ákveðin í að komast til botns í því hvað olli ákveðnu andláti í fyrri þáttaröðinni.

Samkvæmt Kidman, þá skrifaði Meryl undir samning um leik í þáttaröðinni, án þess að lesa handritið. Hún sendi Kidman tölvupóst eftir að þættirnir höfðu unnið Golden Globe verðlaunin árið 2017, og sagði að hún yrði bara að fá að vera með.