Leikarinn Jonah Hill hefur bæst í glæsilegan leikarahóp fyrir nýjustu gamanmynd Coen-bræðra, Hail, Caesar!.
Myndin segir gamansama sögu Eddie Mannix, reddara sem vann fyrir kvikmyndaverin í Hollywood á sjötta áratug síðustu aldar. Eins og þeirra Coen-bræðra er von og vísa, þá koma við sögu ýmsar litríkar persónur í myndinni, enda gerist myndin á svokölluðum gullaldarárum Hollywood.
Channing Tatum, Ralph Fiennes, Tilda Swinton, George Clooney og Josh Brolin hafa nú þegar ákveðið að leika í myndinni. Þá eru einnig getgátur um að Scarlett Johansson sé í viðræðum um að leika í myndinni.
Hill hefur gert það gott að undanförnu í kvikmyndum á borð við The Wolf of Wall Street og Moneyball, en það má sjá hann í kvikmyndahúsum hér á landi ásamt Channing Tatum í gamanmyndinni 22 Jump Street.