Ítalía í fókus á RIFF í haust

riffEllefta óháða Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Reykjavík, RIFF, verður haldin þann 25. september til 5. október n.k. Undirbúningur er kominn á fullt skrið og opnað verður fyrir umsóknir mynda í lok mánaðarins á vef hátíðarinnar www.riff.is

Í tilkynningu frá RIFF segir að Ítalía verði í fókus á RIFF þetta árið, en ítölsk kvikmyndagerð hefur verið í mikilli sókn undanfarið. „Ítalía á einhverja glæsilegustu kvikmyndasögu veraldar en nýrri kvikmyndagerðarmenn eins og Paolo Sorrentino þykja þessa dagana slaga hátt upp í gamla meistara á borð við Fellini og Rossellini,“ segir í tilkynningunni.

„Giorgio Gosetti mun eins og undanfarin ár velja í flokkinn Vitranir. Flokkurinn er eitt af flaggskipum RIFF og eru helstu verðlaun hátíðarinnar, Gullni lundinn, veitt þeirri mynd sem þykir skara fram úr í þessum hópi. Sjaldgæft er að alþjóðlegar kvikmyndahátíðir veiti nýjum leikstjórum svo mikla athygli og er þetta eitt af því sem gefið hefur RIFF alþjóðlega sérstöðu.

Dimitri Eipides mun aðstoða við val á heimildarmyndum í ár, en hann var aðal dagskrárstjóri hátíðarinnar á árunum 2005-2010. Hann tekur við frábæru starfi kanadíska dagskrárstjórans Peters Wintonick sem féll sviplega frá í fyrra.“

Í tilkynningunni segir að mikill fengur sé að samstarfi við Dimitri og Giorgio. Þeir sjái ekki aðeins til þess að hingað berist nýjar gæðamyndir frá öllum heimshornum heldur fái íslenskur kvikmyndaiðnaður að njóta góðs af sterkum alþjóðlegum tengslum þeirra og margra ára starfi þeirra við viðurkenndar kvikmyndahátíðir á borð við Toronto og Feneyjar.

RIFF verður aftur í samstarfi við Hors Pistes videolistahátíðina, sem haldin er árlega í Centre Georges Pompidou í París, og Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Kraká í Póllandi mun sýna myndir um umhverfismál í samstarfi við RIFF sem hefur skapað sér sérstöðu í þeim málaflokki undanfarin ár.

Aðsókn á síðustu hátíð var algerlega frábær eins og segir í tilkynningunni, en hátt í 30.000 gestir á öllum aldri tóku með einhverjum hætti þátt í dagskránni. RIFF er nú einn af stærstu menningarviðburðum landsins.

 

Stikk: