Hvunndagshetjan á hlutabréfamarkaðinum

Kvikmyndin Dumb Money sem kom í bíó um helgina hér á Íslandi er gerð eftir bók Ben Mezrich The Antisocial Network. Þar er sögð sagan af því þegar fjárfestar veðjuðu gegn fyrirtækinu GameStop, sem rekur tölvuleikjabúðir, á hlutabréfamarkaðnum árið 2021. Þeir fengu áfall þegar fólk kom fyrirtækinu til varnar á netinu og keypti bréfin í gríð og erg þannig að verðið tók að hækka á ný sem setti áætlanir fjárfestanna í uppnám.

Fremstur í flokki var Keith Gill, sem þekktur er á netinu sem Roaring Kitty, en myndbönd hans á YouTube vöktu áhuga fylgjenda hans á því órétti sem Wall Street beitti GameStop. Hans eigin bréf í fyrirtækinu hækkuðu um tugi milljóna Bandaríkjadala í ferlinu.

Dumb Money (2023)

Aðgengilegt á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn6.9
Rotten tomatoes einkunn 84%

Segir frá ringulreiðinni á verðbréfamarkaðnum á Wall Street eftir að hlutabréf verslunarfyrirtækisins GameStop tóku stökk vegna Reddit pósta. Í miðpunkti sögunnar er hinn ofurvenjulegi Keith Gill sem byrjar að eyða öllum sparnaði sínum í bréfin og birta færslur um það á ...

Bandaríski leikarinn Paul Dano leikur Gill í myndinni. Hann segist í samtali við The Guardian hafa notið góðs af því að hafa haft aðgang að óteljandi myndböndum á netinu þegar hann var að undirbúa sig fyrir hlutverkið. „Hann heillaði mig upp úr skónum,“ segir Dano um Gill. „Hann er svo glaðvær náungi. Ég sá að það var eitthvað fallegt í honum. Þetta er allt um: hér er ég, ég er með höfuðband og er í kisubol af því að mér finnst það svalt.“

Öfug húfa mikilvæg

Hafnaboltahúfan sem Gill klæddist öfugri var einnig mikilvæg fyrir Dano. „Hún lætur manni líða svo ungum,“ segir hann. „Sem leikari ertu alltaf að leita að einhverju til að ná taki á. Hvað er bakvið hurðina? Hvað er undir steininum? Eitthvað sem hjálpar.“

Dano hafði þó ekki samband við Gill sjálfan. „Honum var stefnt fyrir þingið og hefur verið meira og minna í felum síðan þá. Það var eitthvað rangt við að aka til Massachusetts og standa fyrir utan eitthvað hús sem ég hélt að hann væri inni í.“

Dano segir að Gill hafi á þessum tíma verið hvunndagshetjan sem fólk þarfnaðist. „Faraldurinn geisaði. Allir voru að sparka í GameStop þegar fyrirtækið var í djúpum dal. Að bjarga því gaf fólki eitthvað til að trúa á, eitthvað til að berjast fyrir að halda lífi í.“

Það kom að þeim tímapunkti þar sem gjáin á milli ríka 1% og allra annarra varð skarpari en nokkru sinni fyrr. Flestar aðalpersónur myndarinnar eru kynntar til leiks með tölum sem sýna fram á virði þeirra í peningum. En hvernig er samband Dano sjálfs við peninga? „Ég á tvö börn og er með íbúðalán, þannig að ég tengi við þetta,“ segir hann. „Ég vil geta unnið þau verkefni sem ég vil vinna og haft nægar tekjur til að lifa sómasamlegu lífi, sem ég veit að er mjög forréttindalegt að geta sagt. En ég vil ekki að sjálfsmynd mín sé peningalegt virði mitt.“