Hrútar valin úr 4.000 myndum

Hrútar, nýjasta kvikmynd Gríms Hákonarsonar, hefur verið valin til þátttöku í Un Certain Regard keppni Cannes kvikmyndahátíðarinnar, samkvæmt tilkynningu frá Kvikmyndamiðstöð Íslands. Myndin var í hópi 20 mynda sem valdar voru úr 4.000 innsendum myndum.

Hrutar_04_Grimur_Hakonarson_-®Netop_Films_2015_Photo-®_Brynjar_Sn+ªr_+×rastarson

 

„Cannes kvikmyndahátíðin er ein allra stærsta og virtasta kvikmyndahátíð heims, svokölluð „A“ hátíð, og því er um gífurlegan heiður að ræða fyrir aðstandendur myndarinnar. Hátíðin mun fara fram frá 13. – 24. maí. Um er að ræða heimsfrumsýningu myndarinnar. Af um 4 þúsund myndum sem sóttu um komust aðeins 20 að og munu keppa um aðalverðlaunin „Prix Un Certain Regard.“,“ segir í tilkynningunni.

sigurður sigurjónsson

Leikkonan heimsþekkta Isabella Rossellini verður forseti dómnefndar Un Certain Regard keppninnar. Rossellini mun í samvinnu við dómnefnd ákveða sigurvegara keppninnar og veitir svo persónulega aðalverðlaunin á verðlaunakvöldi hátíðarinnar þann 23. maí. Á meðal þekktra leikstjóra sem hafa sýnt myndir sínar í Un Certain Regard eru Gus Van Sant, Sofia Coppola og Steve McQueen.

Hrútar fjallar um tvo sauðfjárbændur á sjötugsaldri, bræðurna Gumma og Kidda, sem búa hlið við hlið í afskekktum dal á Norðurlandi. Fjárstofn þeirra bræðra þykir einn sá besti á landinu og eru þeir margverðlaunaðir fyrir hrútana sína. Þrátt fyrir að deila sama landi og lífsviðurværi þá hafa bræðurnir ekki talast við í fjóra áratugi. Þegar riðuveiki kemur upp í dalnum grípur um sig mikil örvænting á meðal bændanna þar. Yfirvöld ákveða að skera niður allt sauðfé til þess að sporna við útbreiðslu sjúkdómsins. Bræðurnir standa frammi fyrir því að missa það sem er þeim kærast og grípa til sinna ráða.

Tökur fóru fram á bæjunum Mýri og Bólstað, sem staðsettir eru hlið við hlið í Bárðardal á Norðurlandi.

Grímur Hákonarson leikstýrir og skrifar handritið að Hrútum. Aðalframleiðandi myndarinnar er Grímar Jónsson fyrir Netop Films og meðframleiðendur eru hin dönsku Ditte Milsted og Jacob Jarek fyrir Profile Pictures. Þá er Þórir Snær Sigurjónsson einn af framleiðendum myndarinnar. Framleiðslustjórn er í höndum Evu Sigurðardóttur. Með aðalhlutverk fara Sigurður Sigurjónsson og Theodór Júlíusson. Stjórn kvikmyndatöku er í höndum Norðmannsins Sturla Brandth Grøvlen og Kristján Loðmfjörð sér um klippingu myndarinnar. Tónlist myndarinnar er samin af Atla Örvarssyni og hljóðhönnun er í höndum Huldars Freys Arnarssonar.

Hrútar er fjórða kvikmyndin í fullri lengd eftir íslenskan leikstjóra sem kemst í Official Selection á Cannes, en árið 1993 var Sódóma Reykjavík eftir Óskar Jónasson valin til þátttöku í Un Certain Regard, árið 2003 var Stormviðri eftir Sólveigu Anspach (gerð í samvinnu við Frakka) valin til þátttöku í Un Certain Regard og árið 2005 var Voksne mennesker eftir Dag Kára (gerð í samvinnu við Dani) sömuleiðis valin til þátttöku í Un Certain Regard.

Un Certain Regard hluti Cannes kvikmyndahátíðarinnar var settur á laggirnar árið 1978 og frá og með árinu 1998 hefur verið keppt um „Prix Un Certain Regard“. Markmiðið með verðlaununum er að gera kvikmyndagerðarmönnum sem hafa gert kvikmynd sem hefur frumleika og hugrekki að leiðarljósi hátt undir höfði, m.a. með styrk til dreifingar á kvikmyndinni í Frakklandi.