Hórunnar dýrð á RIFF

Þann 1. október ætlaði ég að kíkja á tvær myndir, Whores’ Glory og Beasts of the Southern Wild en ég komst aðeins á aðra þeirra þar sem það var uppselt á Beasts, ég hefði nú átt að vera löngu búin að redda mér miða en ég áttaði mig bara ekki alveg á vinsældum þessarar myndar. Hvað um það, að minnsta kosti náði ég sýningunni af Whores’ Glory og því get ég fjallað um hana.

whoresglory

Whores’ Glory er heimildamynd um vændiskonur eftir Michael Glawogger og fjallar nánar tiltekið um hórur í þremur löndum sem stunda iðju sína við mismunandi aðstæður. Í Tælandi fylgjumst við með hórunum í The Fishtank eða fiskabúrinu en þær sitja á bak við gler og kúnnarnir velja úr með aðstoð starfsmanns. Í Bangladesh er svokallað ástargettó þar sem mikil fátækt ríkir og eina leiðin til að lifa af er að selja sig, þar er hart barist um kúnnana. Að lokum er farið til Mexíkó í The Zone, þar búa vændiskonur saman í raðhúsalengjum og það er meðal annars rætt við fyrrverandi vændiskonu sem er hætt í bransanum eftir langan og farsælan feril.

Þetta er átakanleg mynd á margan hátt, það er erfitt að horfa á konur selja líkama sína og sérstaklega þær sem eiga engan annan valkost því fátæktin er svo mikil. Ein ung stúlka spyr hvers vegna það sé hlutskipti kvenna að þjást svona mikið, það hlyti að vera önnur og betri leið í lífinu. Mig langaði helst að breiða út faðminn, knúsa hana fast og segja henni að það væri betri leið, að þetta yrði allt í lagi. Ég áttaði mig á hversu heppin ég er að vera fædd á Íslandi en ekki í Bangladesh, annars væri ég í hennar sporum. Þrátt fyrir að vera átakanleg mynd um alvarlegt málefni eru nokkur skondin atriði í  henni  og eitt þeirra er þegar miðaldra kona segir frá vændisdögum sínum, hún var aðalhóran í Mexíkó (samkvæmt henni) á árum áður og hún deilir ýmsum góðum ráðum með áhorfendum. Það var mikið hlegið í salnum á þessum tímapunkti.

Helsti galli myndarinnar er að hún er of löng, hún hefði mátt vera um hálftíma til 40 mínútum styttri og hefði þar af leiðandi verið mun hnitmiðaðri, það eru mörg óþarfa atriði sem hefði mátt sleppa.

Þá er RIFF pistli númer 2 lokið en ekki óttast, ég mun snúa aftur og mun meðal annars fjalla um heimildarmyndina Bleikir Borðar hf. eða Pink Ribbons Inc en nú er einmitt að fara af stað sala á þessum Bleiku Borðum (eða slaufum). Myndin fjallar um hvert féð sem safnast saman af sölu slaufanna fer og hvort það geri raunverulegt gagn. Ég hugsa að ég ákveði það hvort ég kaupi bleika slaufu í ár eftir að ég hef horft á þessa.

Góðar RIFF stundir.