Kvikmyndaleikstjórinn góðkunni, Wes Anderson, er einn af þeim sem hefur einstakan stíl sem einkennir verk hans og er hann með nokkur sterk höfundareinkenni. Föt og hárgreiðslur eru áberandi, áhersla er lögð á leikmuni og atriðin eru stílfærð á mjög smekklegan hátt, líkt og um fullkomnarsinna sé að ræða.
Í nýju myndskeiði er sýnt einmitt frá því hvernig Anderson stílfærir kvikmyndirnar sínar, og liggur fegurðin í einfaldleikanum. Galdurinn er sá að hann miðjar viðfangsefnið í flest öllum atriðum. Hvort um sé að ræða eldspýtu, manneskju eða bjöllu, þá er það sett nákvæmlega fyrir miðju á skjánum.
Það er einnig athyglisvert að sjá að teiknimyndin, Fantastic Mr. Fox, er einnig stílfærð á þennan máta.
Hér að neðan má sjá myndskeiðið, þar sem þráðbeinni línu hefur verið bætt inn á miðjan skjáinn til þess að undirstrika einkenni Anderson.