Bandaríska leikkonan Meghan Markle hefur verið mikið á milli tannnanna á fólki eftir að breska konungsfjölskyldan upplýsti að hún og Harry prins, sonur Karls Bretaprins og Díönu prinsessu, væru trúlofuð. Margir kannast við leikkonuna í hlutverki Rachel Zane í sjónvarpsþáttunum Suits, en það er einungis toppurinn á ísjakanum því leikferill hennar spannar 15 ár.
Markle hóf að leika árið 2002 þegar hún fékk lítið hlutverk í einum þætti af General Hospital sem hjúkrunarfræðingurinn Jill. Eftir það fékk hún nokkur aukahlutverk í sjónvarpsþáttum á borð við CSI, Without a Trace, Castle og Fringe. Á fyrstu árum ferilsins fékk hún þó aðallega hlutverk sem stimpluðu á fallegt útlit hennar og var hún t.a.m titluð sem „heita stelpan“ í Ashton Kutcher-myndinni A Lot Like Love. Markle lék einnig í gamanmyndunum Horrible Bosses og Get Him To The Greek. Það var ekki fyrr en hún fékk hlutverk í kvikmyndinni Dysfunctional Friends þar sem hún fékk tækifæri á að sýna hvað hún hefur upp á að bjóða. Á sama tíma var fyrsta þáttaröðin af Suits í fullum gangi og þar margsannaðist að hún hefur margt fram að færa sem leikkona, en alls hafa verið gerðar sjö þáttaraðir af þáttunum sívinsælu.
Markle hefur alfarið sagt skilið við leiklistina eftir að hún játaðist prinsinum þrátt fyrir að framleiðendur séu ólmir í að fá hana í stórar kvikmyndir og þáttaraðir. Markle hefur því gefið það út að hún muni ekki snúa aftur í hlutverki sínu í áttundu þáttaröðinni af Suits. Markle gegnir nú aðallega hlutverki sendiherra stofnunarinnar World Vision Canada sem berst fyrir réttindum barna til menntunar, næringar og heilbrigðisþjónustu.
Hér að neðan má sjá myndband sem kvikmyndavefurinn IMDb setti saman um leiklistarferil Meghan Markle.
https://www.youtube.com/watch?v=1xYj4bmmYPM