Heillaðist ungur af Halastjörnu í Múmínlandi

Leikarinn og grínistinn Vilhelm Þór Neto hefur haft nóg við að vera upp á síðkastið og verið á margra vörum. Eftir að hafa stolið senunni í síðasta Áramótaskaupi leið ekki á löngu þar til hann hélt áfram að gleðja landsmenn, bæði í þættinum Já OK hjá Útvarpi 101 og síðan í heldur óvenjulegum gamanþáttum sem nýbúið er að frumsýna á Sjónvarpi Símans Premium; Hver drap Friðrik Dór?

Vilhelm (e. Villi) hefur undanfarin ár verið áberandi í íslensku gríni og slegið rækilega í gegn með hressum myndbrotum á samfélagsmiðlum. Þá má ekki gleymast að Villi kom víða við hér áður fyrr og vakti hann fyrst lukku sem hinn dularfulli Mitrovic í Óróa (2010). Þá var hann ekki síður skemmtilegur sem „gæinn úr Nillavídeóinu“.

Sjónvarpsþættirnir ‘Hver drap Friðrik Dór?’ eru í svonefndum „mocumentary“ stíl og hafa netverjar hlaðið seríuna lofi fyrir ferska grunnhugmynd og skemmtilega nálgun. Í þáttunum rannsakar Villi meint andlát söngvarans Friðrik Dórs, en á meðan hann leitar að sannleikanum kemst leikarinn að því að samsærið er stærra en nokkurn hefði getað grunað.

Fókusinn er nú stilltur á Villa og var leikarinn spurður spjörunum úr af Kvikmyndir.is.


Hvað var það sem upphaflega laðaði þig að leiklist/listgreinum?

Ég held, sem krakki, að þá hafi það einfaldlega verið heimurinn sem maður fær að skapa þegar maður stígur inn á sviðið. Það að fá að leiða áhorfandann í ferðalag. Svo fer maður í nám þegar maður er orðinn eldri og endurlífgar þá þessa ást sem maður hafði á sviðslistunum. Um leið lærir maður að elska aðra hluti við það, eins og til dæmis hvernig verk geta vakið upp gagnrýna hugsun hjá áhorfendum, menningarlegt vægi eldri verka og fleira.

Ef líf þitt væri söguþráður í kvikmynd, hvernig myndirðu lýsa
atburðarásinni og hvernig tegund af kvikmynd væri um að ræða?

Ætli ég myndi ekki nefna mynd eins og Boyhood. Mér finnst líf mitt skiptast stundum í svo marga kafla; uppeldið í Portúgal, flutningurinn til Íslands, námið í DK og „endurkoman“ til Íslands. Þessi bíómynd myndi spanna mörg lönd, Portúgal, Ísland og Danmörk.

Þetta væri annars hin klassíska „coming-of-age“ grín/drama bíómynd, með rugluðu fjölskylduna, vandræðalegu unglingaaugnablikin og svo auðvitað alltaf með „aðal“markmiðið í huga, að verða leikari.

Ef við spólum til baka yfir til æskuára, hvað langaði þig mest til að
verða í lífinu þegar þú yrðir stór?


Mig hefur frekar lengi langað að verða leikari, en störfin sem ég hafði mikinn áhuga á sem krakki voru algjör krakkaklassík, eins og dýralæknir, geimfari eða rannsóknarlögreglumaður.

Áttu þér einhverja dulda hæfileika eða skemmtileg hobbý – fyrir utan
vissulega það sem tilheyrir ástríðunni helstu?


Ég er með helvíti mikla dellu fyrir seðla- og myntsöfnun. Þá aðallega frá löndum sem eru ekki lengur til eins og austur-þýskalandi eða Sovétríkjunum. Einnig horfi ég til landa sem eru mjög lítil, eins og Transnistria, eða leita að sögulega mikilvægum seðlum og peningum eins og verðbólguseðlum frá Zimbabwe eða gömlum dönskum peningum frá dögum Jörunds Hundadagakonungs.

Þinn uppáhalds ferðastaður og hvers vegna?

Ef ég ætti að velja land sem er „útlönd“, sem sagt land sem ég hef ekki búið í, þá væri það algjörlega Búdapest í Ungverjalandi. Það er svo ógeðslega margt hægt að gera þar, svo gott veður, góður matur og góðir drykkir. Mæli samt með að fara með vini!

En ef Búdapest-lífið er of mikið þá mæli ég með Balaton-vatni í Ungverjalandi. Ég hef aldrei verið jafn rólegur á ævi minni og þar.

Uppáhalds persóna úr íslenskri kvikmynd eða þætti?

Ég ætla að segja Halla úr Kona fer í stríð. Hún er alveg mögnuð. Ég ætla að vera eins og David Lynch og útskýra það ekkert nánar.

Kona fer í stríð (2018)

Hver er mest gefandi eða óvæntasta lífsreynsla í þínu fagi hingað til?

Ég myndi segja að hvert einasta verkefni væri gefandi. Ég held að skemmtilegasta, mest gefandi og óvænta lífsreynslan hafi verið þegar við vorum í Færeyjum að taka upp fyrir ‘Hver Drap Friðrik Dór?’

Það að fá að „taka yfir“ Færeyjar meðan við vorum í tökum var einstaklega steikt. Sérstaklega þegar við vorum í Kirkjubøur í miðjum Covid-faraldri. Það var bara ótrúlegt að taka yfir svona sögulegan stað með fullt af aukaleikurum og tökuliði sem náttúrulega skilaði sér margfalt í skotunum fyrir þá senu.

Það var ótrúlegt að geta skoðað sig um og fengið að „hanga“ á svona merkilegum stað.

Það var líka einstaklega gefandi að leika Paul í A Mouthful of Birds, lokaverkið okkar í CISPA.

Þínar helstu fyrirmyndir úr listgeiranum?

Þú ættir nú að vita að ég er algjör Charlie Kaufman aðdáandi. Ég dáist að honum sem listamanni og vegna alls þess sem hann hefur gert fyrir kvikmyndabransann.

Hvað varðar leik þá eru mínar helstu fyrirmyndir Philip Seymour Hoffman (R.I.P) og svo er ég farinn að halda mikið upp á Jesse Plemons. Rosamund Pike er líka í miklu uppáhaldi. Hún er mjög góð leikkona sem tekur að sér svo nett verkefni.

Ein hundgömul en forvitnileg; ef þú gætir farið í tímavél og átt langt spjall með aðeins einni manneskju úr lista- eða mannkynssögunni, hvaða einstaklingur yrði fyrir valinu?

Ég myndi bara segja Hannes Hafstein svona í fljótu bragði. Er það ekki eitthvað?

Hvaða kvikmynd gætir þú talað endalaust um ef hún kæmi upp í samræðum?

Synecdoche, New York. (skot á ritstjóra –>) Ég man ennþá hvað ég böggaði þig mikið þegar ég frétti að þú hafir ekki alveg fílað hana eftir fyrsta áhorf.

(innskot höfundar –> Þetta er satt, það tók góðan tíma að melta hvað hún er mikil frussandi snilld. Það er erfitt að finna rétta orðið fyrir hana…)

Þessi bíómynd er meistaraverk. Leikurinn hjá öllum er upp á tíu, ótrúlegt handrit. Þetta er svo úthugsuð mynd á alla vegu.

Synecdoche, New York (2008)

Aðeins yfir í tónlist, hvaða þrjú lög myndir þú segja að séu alltaf
möst á þínum persónulega playlista?

Danger! Hight Voltage – Electric Six
Flamboyant – Dorian Electra
This Woman’s Work – Kate Bush

Á þeim nótum… Hvað er besta íslenska stuðlagið?
Akkúrat núna er það Dansa og Bánsa með Inspector Spacetime. Allra tíma þá væri það líklegast Þorparinn með Pálma Gunnars.

Bestu tónleikar sem þú hefur farið á?
Sampha á Vega í Kaupmannahöfn. Hreint ótrúlegir tónleikar. Það eru margir tónleikar sem ég hef farið á á Vega sem eru hreinlega ógleymanlegir, Metronomy, Alex Cameron, Inc. No World…

Hvaða barnaefni úr æsku gefur þér mestu nostalgíuna og hvers vegna?

Ég myndi segja að það væri Halastjarna í Múmínlandi ef ég man titilinn rétt. Ég horfði á þessa mynd svo oft á spólu sem krakki. Bara að heyra hljóðbrellurnar í henni lætur mér líða eins og ég sé orðinn krakki aftur. Þá er ég að tala um myndina sem kom út árið 1992, ekki þessa frá 2010, sem er kölluð Comet in Moominland á ensku.

Uppáhalds dansatriði úr bíómynd/þætti?

Klárlega dansatriðið úr Ex Machina, svo innilega súrt og óþægilegt. Ég lærði þennan dans meira að segja þegar ég var í námi í Köben.

Ex Machina (2015)

Einn fyndnasti frasinn úr bíómynd/þætti?

Ég ætla að velja eitt úr Walk Hard: The Dewey Cox Story en það er ein fyndnasta mynd sem ég hef nokkurn tímann séð. Ef fólki vantar fullkomna paródíu um ævisögulegar bíómyndir tónlistarmanna þá er þetta myndin. Ég myndi segja að stíllinn hafi þurft að breytast eftir komu þessara myndar vegna þess hversu vel hún setti út á „uppskriftina“:

“You know who’s got hands? The devil. And he uses them for holdin’.”

Bestu ráð sem þú hefur fengið?

Svona nýlegast, þá hefur það verið bara „mundu að þú ert að gera þetta fyrir sjálfan þig“.

Ég hlustaði ekki mikið á það fyrst en þetta festist alveg í undirmeðvitundinni.

Villi ásamt færeyska leikaranum Nicolaj Falck.