Hollywoodleikarinn Dustin Hoffman er ekki ánægður með stöðu kvikmyndaiðnaðarins, og telur að gullöld kvikmyndanna sé löngu liðin.
Hann segir að kvikmyndaiðnaðurinn hafi aldrei verið í verra ásigkomulagi, en sjónvarpið sé hinsvegar í mikilli uppsveiflu.
„Ég held að sjónvarpið hafi aldrei verið betra, og kvikmyndirnar hafi aldrei verið í eins mikilli lægð – á þeim 50 árum sem ég hef verið í bransanum, þá er þetta botninn,“ sagði tvöfaldi Óskarsverðlaunaleikarinn við dagblaðið Independent.
Hann sagði að sparnaður væri helsta ástæða vandamála sem steðja að gæða – dramakvikmyndum. Þetta hafi leitt til þess að of lítil vinna væri lögð í handritsgerð og kvikmyndatökur.
„Við gerðum The Graduate og sú mynd er sígild. Þar vorum við með mjög gott handrit sem þeir eyddu þremur árum í að skrifa, og frábæran leikstjóra, leikara og tökulið. Þetta var lítil kvikmynd – fjórir veggir og leikarar, það var allt og sumt – en samt eyddum við 100 dögum í kvikmyndatökur.“
Hoffman leikstýrði sjálfur sinni fyrstu mynd árið 2012, Quartet. Hann segist ekki hafa fengið mörg tilboð um að leikstýra síðan þá.
„Ég held að það snúist ekki um hvort þú sért góður leikstjóri eða slæmur heldur hvort að kvikmyndin sé líkleg til að skila hagnaði,“ sagði Hoffman.
Hoffman hefur leikið nokkuð í sjónvarpi upp á síðkastið og má þar helst nefna Luck og Esio Trot. Nýjasta kvikmynd hans er The Choir, en þar leikur hann kórstjóra í heimavistarskóla.