Íranska dramað Nader and Simin: A Separation vann aðalverðlaun kvikmyndahátíðarinnar í Berlín, Gullbjörninn, nú um helgina. Hátíðinni sem staðið hefur í tíu daga, lauk nú um helgina. Myndin var valin Besta myndin og aðalleikarar myndarinnar sigruðu einnig í sínum flokkum.
Myndin er eftir Asghar Farhadi og fjallar um hjónabandsvandræði, og er fyrsta íranska myndin til að sigra á hátíðinni.
Í myndinni takast tvær fjölskyldur á, og sýnir myndin bilið á milli millistéttarinnar og fátækari Írana, sem láta sig trú og heiður meira varða.
Leikstjórinn Farhadi minntist í þakkarræðu sinni á kollega sinn, leikstjórann Jafar Panahi, sem gat ekki þegið boð kvikmyndahátíðarinnar um að sitja í aðaldómnefnd hátíðarinnar eftir að hafa verið dæmdur í sex ára fangelsi og bannað að gera kvikmyndir og ferðast til útlanda, næstu 20 ár. Farhadi var þó bjartsýnn á að lausn fengist á málum Panahi, og hann myndi komast á næstu hátíð að ári.
Myndin sem varð í öðru sæti í keppninni um Gullbjörninn, og hlaut Silfurbjörninn, var svart-hvít mynd ungverska leikstjórans Bela Tarr, The Turin Horse, hæg mynd um líf bónda og dóttur hans á afviknum, vindasömum stað.
Ein af örfáum óvæntum verðlaunum, voru verðlaun sem þýski leikstjórinn Ulrich Koehler hlaut fyrir myndina Sleeping Sickness.
Besta handrit var valið The Forgiveness of Blood eftir Joshua Marston og Andamion Murataj.
Myndin The Prize, sem gerist í Argentínu, fékk tvö tækniverðlaun, og Alfred Bauer verðlaunin fyrir nýsköpun fóru til þýsku myndarinnar If Not Us, Who.