Guardians of the Galaxy Vol. 2 – fyrsta stikla!

Fyrsta stiklan í fullri lengd var að koma út rétt í þessu fyrir Marvel ofurhetjumyndina Guardians of the Galaxy Vol. 2. Í október var birt 90 sekúndna kitla, auk þess sem Marvel sýndi efni úr myndinni á Comic Con hátíðinni í San Diego í ágúst sl. sem aldrei var birt utan hátíðarinnar. En nú er sem sagt komið að því að fá að sjá alvöru stiklu.

guard

Margir bíða í ofvæni eftir að fá að sjá myndina í bíó enda var fyrri myndin algjör smellur árið 2014 og þénaði 773 milljónir Bandaríkjadala í bíó um allan heim. Vafalaust var það léttleikandi húmor, margbreytilegar og lítið eitt sérkennilegar aðalpersónur og skemmtileg tónlist sem áttu stóran þátt í velgengninni, og miðað við nýju stikluna þá heldur fjörið áfram í nýju myndinni!

Flestir leikara úr fyrri myndinni eru mættir aftur, þar á meðal Chris Pratt sem Star-Lord, Zoe Saldana sem Gamora, Dave Bautista sem Drax, Vin Diesel sem rödd Groot ( Þó Groot sé reyndar barn í þessari mynd) og Bradley Cooper sem talar fyrir Rocket.  Auk þess eru nýir leikarar eins og Sylvester Stallone, Kurt Russell og Elizabeth Debicki.  Karen Gillan snýr aftur sem Nebula og Michael Rooker er aftur í hlutverki Yondu.

James Gunn bæði leikstýrir á ný, og skrifar handritið. Myndin kemur í bíó 28. apríl nk.

Kíktu stikluna hér fyrir neðan: