Fjölmenni var á frumsýningu nýrrar íslenskrar glæpamyndar, Grimmd, í Smárabíói nú fyrr í kvöld, að viðstöddum leikurum myndarinnar, leikstjóra og öðrum aðstandendum.
Anton Sigurðsson leikstjóri og Haraldur Bjarni Óskarsson framleiðandi.
Áhorfendur fylltu fjóra sali Smárabíós og fylgdust með því þegar rannsóknarlögreglumennirnir Edda Davíðsdóttir og Jóhannes Schram rannsökuðu dauða tveggja systra sem finnast í Heiðmörk. Önnur stúlkan ber merki um langvarandi misnotkun og því beinist rannsóknin fljótt að ýmsum dæmdum barnaníðingum. Áhorfendur eru leiddir frá einum þeirra til annars og haldið í óvissu um hver þeirra framdi glæpinn, fram á síðustu mínútu. Inn í þetta fléttast einnig persónuleg mál Eddu.
Anton Sigurðsson leikstjóri hélt stutta ræðu fyrir sýninguna og rakti þar meðal annars hvernig hann heillaðist af kvikmyndagerð þegar verið var að taka myndina Stikkfrí í Hafnarfirði, heimabæ hans, þegar hann var níu ára gamall. Allir krakkarnir í skólanum vildu fá að leika í myndinni, og hann sömuleiðis. Þá sagði hann áhorfendum frá því þegar hann fór á stuttmyndanámskeið sem unglingur, og hvernig hann fékk þann stóra dóm frá ónefndum aðila í kjölfarið að hann ætti að láta frekari kvikmyndagerð eiga sig í framtíðinni.
Anton helgaði þessum aðila ( sem hann sagði að væri í staddur í salnum) þessa nýju mynd, Grimmd, og óskaði fólki síðan góðrar skemmtunar!
Sjáðu stiklu úr myndinni hér að neðan: