Mér fannst alltaf viðeigandi að Batman Begins hafi spurt spurninguna: „Hvað gerist þegar við dettum niður?“ Og svarið, sem er svo heimskulega augljóst („Við lærum að rísa aftur!“), endurspeglar nokkuð fullkomlega þessa endurræsingu/reboot-mynd sem hún er. Í því tilfelli þurfti ekki nema einn Joel Schumacher eða nokkra skjálfandi aulaframleiðendur til að fara með seríuna í lúðalegar áttir og þar af leiðandi skemma gott vörumerki, þ.e.a.s. þangað til nýr fagmaður tók við og spannaði gull út úr efninu. Eða svo gott sem. Ég sé heldur ekki betur en að Kóngulóarmaðurinn hafi gengið í gegnum eitthvað svipað.
Það er hægt að færa rök fyrir því að The Amazing Spider-Man sé tilgangslaus og fljótfær endurræsing (sem jaðar við það að vera einfaldlega endurgerð) því í grófum dráttum segir hún eiginlega sömu sögu og var sögð í fyrstu Sam Raimi-myndinni, sem er rétt svo áratugagömul. Stærsti munurinn er stíllinn, þróunin, dramað, andrúmsloftið og nokkrar persónur. Réttlætingin liggur þó í því að hér er sagan betur uppsett, skemmtilegri og miklu meira í takt við það sem ég vildi upphaflega fá út úr 2002-myndinni. Eða öllum þríleiknum, ef út í það er farið. Þess vegna þurfti ekki nema eina meingallaða upphafssögu, fyrirtaks tvist í beinu framhaldi og óskipulagða emó-óreiðu fyrir Sony, Marvel og Raimi til að átta sig á því að best væri að halda í allt aðra átt eftir seinustu mynd.
Eins og nefnilega hjá mörgum öðrum ímyndunarveikum drengjum hélt ég heilmikið upp á þessa ofurhetju á mínum yngri árum (og geri það auðvitað enn) en að sama skapi skil ég ekki hvernig annað er hægt; ungur gæi, hress, klár, lúðalegur en samt líka montinn með kraftanna sína. Subbulega fyndinn þegar hann flippar í óvinum sínum, nógu þjáður samt til að vera sympatískur án þess að vera alvarlegur allan sólarhringinn – eins og nokkrir sem ég gæti nefnt. Ég þurfti lengi að bíta í það súra epli að Raimi elskaði greinilega ekki það sama við Kóngulóarmanninn og ég, en núna loksins finnst mér einhver hafa náð að búa til Spider-Man-mynd sem algjörlega fattar hvað það er sem gerir hann svona tryllt æðislegan. Og fyndinn!
Tobey Maguire á ekkert í Andrew Garfield! Þá fyrst og fremst vegna þess að Garfield lætur forvera sinn líta út eins og lágvaxinn lúða í náttfötum í samanburði. Að sjá þennan breska gæðaleikara túlka bæði venjulegan Peter Parker og últra svölu spandex-hetjuna fær mann til að átta sig stöðugt meira á því hversu mikið Maguire var ekki að virka í rullunni. Garfield er endalaust fullkominn á öllum sviðum og toppar hann meira að segja léttilega það örfáa sem Maguire brilleraði í. Ég hafði nógu hátt álit á manninum eftir Never Let Me Go og The Social Network, en nú á hann skilið öll stóru, fínu lýsingarorðin. Ég kaupi hann líka tvímælalaust sem menntskæling, þrátt fyrir að vera 28 ára.
Með einungis þessum aðalleikara tókst þessari mynd að minna mig á það hvers vegna ég elska þessa hetju til að byrja með. Ég fékk einhverjar leifar af þessu hjá hinum loddaranum í Raimi-myndunum en nú er það allur pakkinn í einni ræmu og reyndar aðeins meira til. Parker er orðinn gáfaðri, trúverðugri, athyglisverðari og klárlega svalari og miklu, miklu fyndnari karakter þegar hann er kominn í þrönga samfestinginn. Ég skil aldrei hvernig Raimi komst upp með þá ákvörðun að strípa niður húmorinn hjá honum. Þetta er einstaklega mikilvægt hráefni hjá Spider-Man, nánast heill útlimur í sjálfu sér. Loksins passar líka röddin á leikaranum við flotta búninginn og loftfimleikarnir líta minna út eins og hér sé þyngdarlaus fígúra úr tölvuleik að sveiflast til. Og meira að segja búningurinn kemur töluvert betur út hérna en áður.
Spider-Man 2 finnst mér enn vera klikkaðslega vel heppnuð hasarblaðamynd (elska þetta orð!) og hefur hún fáeina kosti sem The Amazing Spider-Man hefur ekki (t.d. dýpri, ferskari sögu og betra illmenni) en kostirnir í endurræsingunni eru almennt sterkari. Þess vegna er hún betri myndin af þeim tveimur. Það eru nokkrar litlar holur og kjánareddingar í handritinu að þessu sinni og Origin 101 formúlan skín alveg í gegn. Það eru fáir kaflar í myndinni sem hafa ekki sést einhvers staðar áður, með öðruvísi en samt sambærilegu sniði, en samtölin eru engu að síður góð, uppbyggingin rúllar vel og tónninn gæti ekki passað betur við. Myndin er nógu vel skrifuð til að vera í nokkuð öruggum höndum ef einhver annar leikstjóri sæi um þetta, sérstaklega með Garfield í burðarrullunni, en Marc Webbflytur myndina alveg upp á annað gæðaplan, sem ég vissi ekki einu sinni að væri í boði.
Nafnið gefur aðeins til kynna að leikstjóranum hafi frá upphafi verið ætlað að stíga inn til að bjarga því sem hinar myndirnar klúðruðu. Eins lúðalega kaldhæðin og þessi tenging er á nafninu og verkefninu sjálfu fer það ekki á milli mála að þessi maður er fæddur í það að gera kvikmyndir, stórar og litlar. Rétt svo yfirborðið á hinni frábæru (500) Days of Summer sýnir að Webb tók vel unnið en heldur reglubundið handrit og lagði heilmikla hugsun í ekki bara hverja einustu senu, heldur hvern einasta myndaramma. Auk þess virðist hann hafa hlýtt hjarta og gott auga fyrir því að spotta það hvenær hjartnæmu atvikin enda og tilgerðarlega væmnin byrjar. Samskipti parsins í Summer voru yndisleg og leikarar nutu sín til þess ýtrasta. Sama saga með The Amazing Spider-Man. Myndatakan er ótrúlega flott, kjánahrollur er sama og enginn og helsta lykilinn að sjarmanum er að finna í gegnum leikaranna.
Garfield á þessa mynd, en samleikur hans við Emmu Stone er það sem “vefur” söguna saman. Stone veldur ekki vonbrigðum frekar en fyrri daginn og er satt að segja bara nokkuð ótrúlegt hvernig hún verður alltaf aðeins fjölbreyttari með hverri mynd. Ekki vantar heldur metnaðinn í aukaleikaranna, því þeir eru flestallir eftirminnilegir. Rhys Ifans gengur í gegnum frekar týpíska rútínu en dettur þó aldrei í hlutlausan gír. Hann er feiknagóður og kemur Lizard-skúrkurinn prýðisvel út. Brellurnar eru einstaka sinnum dálítið ósannfærandi en í allra flestum tilfellum svakalega töff. Fúlt samt hvað tónlistin er óeftirminnileg. Þegar horft er á Spider-Man mynd þykir mér bráðnauðsynlegt að fylgi með henni grípandi og raulanlegt þemalag sem gírar mann upp þegar hetjudáðirnar ná hámarki. Lítið um slíkt hérna og þjáist heildarmyndin fyrir það.
Webb sér til þess að hvolfa bjarta, tandurhreina og teiknimyndalega stílnum hans Raimi og skipta honum út fyrir dekkra en samt beittara yfirbragði sem fangar óaðfinnanlegan myndasögukeim í raunverulegum heimi. Það er afar fullnægjandi á augun hvernig skuggarnir eru nýttir með skæru litunum og er afar vandlega séð um tónaskiptingarnar. Stundum er dregin upp viðkunnanleg rómantísk unglingamynd í senunum með Garfield og Stone, en myndasöguhasarinn stemmir alltaf við. Þegar sveiflurnar og slagsmálin byrja líður manni aldrei eins og maður sé stiginn inn í allt aðra bíómynd. “Aksjónið” er akkúrat rétta blandan af teiknimyndalegum (en aldrei *of* gervilegum) skepnuhasar og helluðu fimleikafjöri. Webb kvikmyndar líka New York-borg betur en Raimi. Meira myrkur. Meira af ljósum. Meira grípandi.
Sony olli mér endalaust vonbrigðum í gegnum gamla þríleikinn, þar sem listinn nær frá asnalegri Green Goblin-hönnun til latrar handritsgerðar og ófyrirgefanlegrar ráðningu á Topher Grace í hlutverki Venom. Aldrei hefði mér dottið í hug að öllu því slæma yrði snúið við og bætt upp… svona vel. Útlitslega, tónalega séð og hvað tilfinningar varða er þetta allt það sem Spider-Man bíómynd á að vera. Hún er gerð af 150% áhuga og get ég ómögulega ímyndað mér stærra rafstuð fyrir ferilinn hjá Garfield, Stone og Webb.
Gullmolamagnið er hvergi af skornum skammti og líður þægilega langt á milli sena sem eru ekki fyndnar, flottar eða skemmtilegar. Kaflarnir þar sem Parker uppgötvar krafta sína fyrst eru allir betri og skemmtilegri heldur en öll upprunalega myndin í heild sinni, en athugið það að ég er alls ekki sammála pósitíva umtalinu sem hún hefur fengið frá upphafi. Ég er eiginlega bara furðu hissa yfir því hversu mörgum finnst hún góð.
Gleymdu upprunalegu myndinni ef þú ert ekki smákrakki. Hún er af allt annarri plánetu en þessi og í framtíðinni mun ég líta á hana sem nauðsynlegan þátttakanda í því að gera þennan geira að því sem hann er í dag. Þegar svona þekkt og klassískt batterí er um að ræða er fyrirgefanlegt að framleiðendur gætu þurft að elda sama réttinn tvisvar, bara svo þeir nái honum rétt. Ég hélt að ég væri löngu orðinn þreyttur á upphafssöguformúlunni og á margan hátt er ég það, en grundvallaratriðið liggur í uppsetningunni og áhrifunum sem maður fær og í þessu tilfelli er upphafssagan vönduð og skemmtanagildið missir sjaldan sem aldrei flugið. Á 130 mínútum segir það ansi margt.
Staðreyndin er skýr: Þetta ER Batman Begins útgáfan af Spider-Man. Sömuleiðis uppáhalds Marvel-myndin mín í augnablikinu á eftir The Avengers. Ofurjákvæða lýsingarorðið í titlinum er rækilega verðskuldað. Það eru bestu fréttirnar.
(8/10)