Góðir gestir í Bíóblaðri

„Bíóblaður er fyrst og fremst hugsað sem skemmtiefni. Þetta eru spjallþættir í léttari kantinum sem taka sig ekki of alvarlega,“ segir kvikmyndaáhugamaðurinn Hafsteinn Sæmundsson, en hann er umsjónarmaður hlaðvarpsins umrædda. Þátturinn hóf göngu sína síðastliðinn júlí og hefur farið hratt vaxandi í vinsældum. Á meðal margra gesta þáttarins má nefna Baldvin Z, Völu Kristínu Eiríksdóttur, Pál Óskar, Sunnevu Einarsdóttur, Hugleik Dagsson, Donnu Cruz og Gísla Einarsson.

Þættirnir nálgast níunda tug en í samtali við Kvikmyndir.is kveðst Hafsteinn stefna ótrauður á þátt númer 100 í júlí.

„Það sem gleður mig mest í sambandi við podcastið eru öll skilaboðin sem ég fæ frá fólki. Þættirnir hafa til dæmis náð að búa til nýja kvikmyndaáhugamenn, náð að kveikja aftur í gamalli ástríðu hjá sumum sem höfðu misst pínu áhugann á kvikmyndum, aðrir eru farnir að búa til sína eigin Topp 10 lista með fjölskyldunni sinni,“ segir Hafsteinn og bætir við: „Síðan eru aðrir sem hafa uppgötvað bíómyndir sem ég eða gestur minn höfum nefnt í einhverjum þætti.“

Hafsteinn segir að markmið hlaðvarpsins í grunninn sé einfalt; að fá fólk til að kunna betur að meta þetta skemmtilega listform sem kvikmyndir eru.

„Kvikmyndir höfða til flestra að einhverju leyti og það sem mér hefur alltaf þótt skemmtilegt er að spjalla við alls konar fólk um bíómyndir. Það er eitthvað sem ég gerði löngu áður en ég byrjaði með Bíóblaður en nú hef ég tækifæri til að spjalla við enn stærri hóp af fólki og leyfa öðrum að horfa eða hlusta á spjallið,“ segir Hafsteinn.

Hér eru 10 hressandi innslög Bíóblaðurs.

BRANSASPJALL MEÐ BALDVINI Z


SCI-FI MEÐ EMMSJÉ GAUTA


BRANSASPJALL MEÐ VÖLU KRISTÍNU


TOPP 10 MEÐ KILO


MARVEL MEÐ SUNNEVU EINARS


NÖRDASPJALL MEÐ GÍSLA NEXUS


KVIKMYNDAÁSKORUN MEÐ BIRTU LÍF


BÍÓSPJALL MEÐ PÁLI ÓSKARI


LÍFSSPEKI MEÐ SIGGU KLING


NÖRDASPJALL MEÐ HUGLEIKI DAGS