Fyrsta stiklan er komin fyrir myndina The Art of the Steal, sem skartar fjölda þekktra leikara í helstu hlutverkum, eins og Kurt Russell, Jay Baruchel, Matt Dillon og Terence Stamp.
Leikstjóri og handritshöfundur er Jonathan Sobol, en myndin fjallar um mótorhjóla ofurhuga að nafni Crunch Calhoun, sem skipuleggur í félagi við svikulan bróður sinn, rán á einni af verðmætustu bókum í heimi.
Þeir bræður fá svo í lið með sér ýmsa sérfræðinga; falsara, upplýsingasérfræðing og bílstjóra m.a.
Kíktu á stikluna hér fyrir neðan:
Nánari söguþráður hljómar svona. Crunch Calhoun, þriðja flokks mótorhjóla ofurhugi, og fyrrum þjófur, sem er hálfpartinn hættur að stela, ákveður að fara aftur öfugu megin við lögin, og fremja eitt rán til viðbótar, ásamt hinum svikula bróður sínum Nicky. Crunch kallar saman gamla gengið sitt og býr til áætlun um að stela ómetanlegri og sögulegri bók. Ránið heppnast vel, en það leiðir til þess að þeir gera aðra og mun áhættusamari áætlun, sem Nicky skipuleggur. Það sem bræðurnir átta sig ekki á, er að hver og einn hefur sín eigin plön og þá er hætt við að allt fari úr böndunum þegar á hólminn er komið.
Russell leikur ofurhugann, Dillon leikur Nicky, og hinir í liðinu eru Terence Stamp, Jay Baruchel, Chris Diamantopoulos, Katheryn Winnick og Jason Jones.
Óvíst er hvenær myndin verður frumsýnd í almennum sýningum, en hún verður sýnd á TIFF, alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Toronto sem nú stendur yfir.