Glæpamenn borða Sushi – Stikla

Sushi Girl heitir nýleg mynd sem ekki hefur farið mjög hátt, né fékk hún áberandi góða aðsókn í Bandaríkjunum, en er þó áhugaverð.  Bæði er söguþráðurinn skemmtilegur, auk þess sem leikarahópurinn er forvitnilegur og inniheldur m.a. Danny Trejo og Mark Hamill.

Sjáðu stikluna fyrir myndina hér fyrir neðan:

Myndin fjallar um Fish sem er búinn að eyða sex árum í fangelsi. Sex árum aleinn. Sex árum sem hann hefur þagað um ránið, og um hina mennina sem tóku þátt í því.

Kvöldið sem honum er sleppt, þá fagna mennirnir fjórir sem hann þagði um, honum með hátíðarkvöldverði. Þeir bjóða upp á úrval af sushi réttum sem bornir eru fram á nöktum líkama fallegrar ungrar konu. Sushi stelpan er sem stjörf, þjálfuð í að veita engu í kringum hana athygli, jafnvel þó að hættur séu í umhverfinu. Þjófarnir treysta á að stúlkan sé ekki að hlusta, og ræða um gömul mál í tilraun til að finna ránsfenginn sem er týndur.

Hér fyrir neðan er hægt að hlusta á Mark Hamill, betur þekktur sem Logi Geimgengill í Star Wars, ræða um myndina við fréttamann:

Myndin var frumsýnd í lok nóvember 2012 í Bandaríkjunum, en ekkert er vitað hvort eða hvenær eða í hvaða formi Sushi Girl kemur til Íslands.