Gershon verður Donatella Versace

Leikkonan Gina Gershon mun leika ítalska tískuhönnuðinn og núverandi yfirmann hjá Versace Group tískufyrirtækinu, Donatella Versace, í sjónvarpsmyndinni House of Versace á Lifetime sjónvarpsstöðinni.

Gina-Gershon-535x310

Filmofilia vefsíðan segir að auk hennar muni Raquel Welch og Enrico Colantoni koma fram í myndinni.

Leikstjóri verður Sara Sugarman og handrit skrifar Rama Stagner, en myndin verður byggð á bók Deborah Ball, House of Versace: The Untold Story of Genius, Murder.

Samkvæmt fregnum þá mun myndin fjalla um erfiðleikana sem fylgdu því fyrir Donatellu að taka við stjórninni á tískuhúsinu þegar bróðir hennar Gianni Versace var myrtur árið 1997.

Einnig verður komið inn á eiturlyfjanotkun hennar og feril tískuhússins, sem hefur verið bæði niður á við og upp á við, en er í dag risi í tískuheiminum.

Colantoni mun leika Gianni Versace og Raquel Welch leikur frænku þeirra, Lucia. 

Myndin verður frumsýnd 5. október nk. á Lifetime sjónvarpsstöðinni.