Spennan vex fyrir aðdáendur sjónvarpsþáttanna Ráðgátur, eða X-Files, en ný 6 þátta röð verður frumsýnd þann 24. janúar nk. Í glænýrri stiklu úr þáttunum brotlendir geimskip á Jörðinni, og það má því segja að þættirnir byrji með látum!
Eins og Mulder, sem David Duchovny leikur, segir í byrjun stiklunnar, þá var Ráðgátuskjölunum lokað og læst árið 2002, en það sama var ekki að segja með áhuga Mulder sem hélt áfram að vera heltekinn af innihaldi þeirra.
Sjáðu stikluna hér fyrir neðan:
Auk Duchovny fer Gillian Anderson með aðalhlutverk í þáttunum, hlutverk Scully, samstarfsfélaga Mulder.
En brotlending geimskipsins er ekki það eina fréttnæma við stikluna því The Cigarette Smoking Man ( vindlingareykjandi maðurinn, í lauslegri snörun ), kemur fram og og segir að búið sé að opna Ráðgátuskjölin ( X-Files ) á nýjan leik, og þar með er fjandinn laus …