Lord of the Rings leikarinn Ian McKellen hafnaði boði upp á 1,5 milljónir Bandaríkjadala, eða ríflega 175 milljónir íslenskra króna, um að gefa saman í hjónaband milljarðamæring og brúði hans, íklæddur gervi Gandálfs, persónu McKellen úr Lord of the Rings myndunum.
Vefur The Telegraph greinir frá því að um hafi verið að ræða engan annan en Sean Parker, stofnanda skráarskiptasíðunnar Napster og fyrsta stjórnarformann Facebook.
Parker, sem á eignir sem samkvæmt Forbes tímaritinu, eru metnar á 1,8 milljarða dala, eða 210 milljarða íslenskra króna, kvæntist söngkonunni Alexandra Lenas árið 2013 í brúðkaupi þar sem andi Tolkien sveif yfir vötnum, en meðal annars þá var, samkvæmt Vanity Fair tímaritinu, boðið upp á þriggja metra háa brúðkaupstertu og ýmislegt Tolkien tengt.
Brúðkaupið var haldið í Kaliforníu, og kostaði að sagt er, 7,5 milljónir dala, en meðal gesta voru ýmsir frægir, eins og Sting og Emma Watsons. Ian McKellen var hinsvegar fjarri góðu gamni.
„Mér voru boðnar 1,5 milljónir dala fyrir að gifta mjög frægt par í Kaliforníu, sem ég hefði mögulega tekið að mér, en ég hefði þurft að vera klæddur eins og Gandálfur,“ sagði hinn 77 ára gamli leikari sem árið 2013 gaf þau Star Trek leikarann Sir Patrick Stewart og Sunny Ozell saman við borgaralega athöfn. „Þannig að ég sagði, því miður, Gandálfur er ekki í því að gefa hjón saman,“ sagði McKellen við Mail on Sunday.
McKellan ræddi þessi mál fyrir utan Theatre Royal í Newcastle nú um helgina þar sem hann leikur í leikriti Harold Pinter, No Man´s Land. „Hann er mjög ríkur, það er allt sem ég veit …. ég fer aldrei í búningaleik – nema í leikritum og slíku.“