Gagnrýni: This is 40

Einkun: 3/5

Kvikmyndin This is 40 er óbeint framhald af kvikmyndinni Knocked Up þar sem þau Katherine Heigl og Seth Rogen voru í aðalhllutverkum. This is 40 gerist þannig 5 árum eftir atburði Knocked Up og fjallar um hjónin Pete og Debbie sem leikin eru af þeim Paul Rudd og Leslie Mann en áhorfendur fengu einmitt að kynnast þeim smávegis í Knocked Up þar sem Alison var systir karakters Heigl en þau Rogen og Heigl eru þó hvergi sjáanleg í þessari sjálfstæðu framhaldsmynd. Það er sem fyrr leikstjórinn og handritshöfundurinn Judd Apatow sem leikstýrir og skrifar This is 40 en auk Knocked Up hefur hann skrifað og leikstýrt myndum á borð við The 40 Year old virgin og Funny People.

Í byrjun myndarinnar fáum við að kynnast Pete, Debbie og dætrum þeirra tveimur en þær eru einmitt leiknar af dætrum þeirra Leslie Mann og Judd Apatow. Myndin gerist í kringum stóran áfanga í lífi þeirra Pete og Debbie þar sem þau eru bæði að verða fertug með allri þeirra „sálarkreppu“ sem kann að fylgja slíkum áfanga. Pete og Debbie eru svo sannarlega að reyna sitt besta til að halda hjónabandinu lifandi og fjölskyldunni hamingjusamri í þeim krefjandi heimi sem nútímanum fylgir. Myndin tæklar öll helstu umhugsunaratriði þegar kemur að hjónabandi og fjölskyldulífi, þ.e. samband eiginmanns við eiginkonu sína, samband foreldra og barna/unglinga og jafnframt samband foreldra við foreldra sína. Þannig fær áhorfandinn að fylgjast með þeim Pete og Debbie takast á við öll þau vandamál sem þessum ólíku samböndum fylgir. Til dæmis kynlífs vandamálum í hjónabandinu, vandamálum sem koma upp milli foreldra og unglinga þeirra, þ.e. hvar mörkin liggja milli einkalífs unglinga og foreldra og síðast en ekki síst, vandamálin sem foreldrar geta átt við sína foreldra og hvernig samband þeirra geta þróast í ólíkar áttir.

Myndin fjallar því mest megnis um raunir fjölskyldunnar og hvort þau Pete og Debbie nái endum saman en jafnframt, hvort þau nái að halda fjölskyldu sinni saman með öllum þeim fjárhagslegu og tilfinningalegu erfiðleikum sem herja á fjölskylduna. Myndin er því í senn dramatísk, gamansöm og rómantísk en þeir sem ætlar sér að sjá This is 40 verða að vera tilbúnir að þola öll þessi þemu þar sem þau hafa öll sterk og mikil áhrif á myndina.

Þau Paul Rudd og Leslie Mann fara mjög vel með hlutverk sín og gefa karakterum sínum mjög raunverulega ásýnd. Þá verður að hrósa Judd Apatow fyrir leikstjórnina en það verður þó að segjast að hann hefur áður skrifað betri handrit, þ.e. This is 40 er stundum svolítið villt og fer af og til út af sporinu og söguframvindan eftir því. Þá komast aukaleikararnir Jason Segel, Megan Fox og Chris O´Dowd ágætlega frá hlutverkum sínum en þeim aukaleikara sem ber helst að hrósa er Albert Brooks sem leikur pabba Pete með eftirminnilegum hætti.

 

 

Flest allir sem hafa séð Judd Apatow mynd ættu að geta gert sér í hugarlund hvernig mynd This is 40 í raun og veru er.  Að undanskildri Pinapple Express dansa myndir Apatow jafnan skemmtilega á þeirri línu að vera dramamynd og gamanmynd og það er nákvæmlega það sem gerist í This is 40. Að mínu mati náði hún þó aldrei þeim hæðum sem ég hafði vonast til að hún næði og ég neyðist því til að gefa henni þrjár stjörnur af fimm þó svo að mögulega væri hægt að færa rök fyrir því að hún ætti skilið þrjár og hálfa stjörnu. Ef ég má taka mér það bessaleyfi að líkja This is 40 við grjónagraut að þá má segja að grjónin, mjólkin og saltið hafi verið til staðar en hana skorti allan kanilsykur. Ég hvet þó alla til að sjá myndina í kvikmyndahúsi þar sem  hún er afbragðs skemmtun sem flest allir geta tengt við að einhverju leyti.