Gagnrýni: The Inbetweeners Movie

Ég veit ekki með ykkur en ég verð alltaf sjálfkrafa rosalega óspenntur þegar ég veit að ég er að fara að horfa á mynd sem er byggð á vinsælum þáttum sem ég hef ekki séð. Að vísu hafði ég heyrt góða hluti um The Inbetweeners-þættina en ég hugsaði alltaf að það væri langur tími þar til þeir yrðu bættir í þá hrúgu af þáttum sem ég fylgist þegar með eða á eftir að kíkja á. Maður býst einhvern veginn bara við einkabröndurum, tilvísunum sem maður fattar ekki eða í það minnsta að persónurnar séu svo grunnar og fjarlægar þar sem þær fengu allar sínar þróun (upp að þessum punkti allavega) í sjónvarpinu. Sem betur fer var ég ekki nógu svartsýnn fyrirfram til þess að strika alveg yfir myndina, því ef eitthvað þá fær hún mig til þess að vilja kíkja á seríurnar enn frekar.

The Inbetweeners Movie er augljóslega gerð af fólki með vit í kollinum og er hún fullkomlega aðgengileg þeim sem hafa ekki eytt áður tíma með aulunum sem hún fjallar um. Ef hún myndi jafnvel sleppa orðinu “Movie” í titlinum þá yrðu litlar líkur á því að þeir sem sjá þessa mynd blindandi vissu að þetta væri byggt á einhverju öðru með sama nafni. Engu að síður held ég að þeim sem finnst það ekkert hljóma of illa að sjá breska samsuðu af American Pie og The Hangover, sem er samt að mínu mati fyndnari en þær báðar, þá er þessi mynd algjörlega málið og ekki síður í góðum félagsskap þar sem margir eru í kring. Og ef einhver er ennþá með vondar minningar (eins og t.d. ég) af horbjóðinum sem hét Kevin and Perry Go Large, sem virkar ekkert ósvipuð þessari á blaði, þá get ég lofað því að þetta er einmitt allt það sem sú kúadrulla reyndi að vera.

Myndin er pínu gróf en án þess að vera áreynslumikil eða barnaleg og fyndin en án þess að sækjast beint í ódýran hlátur. Húmorinn verður oftast til úr fyndnum aðstæðum en ekki samhengislausum fíflagang. Þú hlærð líka bæði karakterunum og með þeim, og þrátt fyrir að vera meistaralega miklir bjánar á köflum (hver á sinn ólíka hátt) verður aldrei of leiðinlegt að hanga með drengjunum. Skemmtilegastir eru þó Simon Bird og Blake Harrison, sem ofurnördinn með góða viljann en sorglega félagshæfileika og siðferðislega ringlaði sláninn sækist óhuggulega mikið í feitar, eldri konur. Hinir tveir, James Buckley og Joe Thomas, eru mjög fínir og eiga sín móment en þreytast mun fyrr.

Þessi mynd hefur samt alvöru hjartslátt og mistekst ekki í tilraunum sínum til að gera persónurnar viðkunnanlegar og eðlilegar. Allar ákvarðanir og gjörðir þessara karaktera eru aldrei of langsóttar eða yfirdrifnar, þótt stundum heimskulegar séu, fyrir 18 ára drengi. Ekki var ég nú a.m.k. skynsamastur á þeim aldri og þegar lokakreditlistinn byrjar er manni ekki jafnmikið sama um alla og þegar myndin er cirka hálfnuð. Það er svosem standard að góð gamanmynd nái svona markmiði en þessi gerir það án þess að missa húmorinn úr augsýn. Á milli persónubreytinganna eru enn meinfyndnir djókar til staðar. Ég átti hins vegar erfitt með að trúa því að stelpa nokkur í myndinni gat sýnt einum gæjanum endalausan áhuga þegar hann gerði ekkert annað en að væla um fyrrverandi kærustu sína, og þá á ansi háu stigi. Það má deila um það hversu mikið ég veit um kvenfólk, en það sem ég veit er að jafnvel maður eins og Ryan Gosling ætti erfiða möguleika ef hann grenjaði svona oft um gamla sambandið sitt. Er þetta ekki ofarlega á listanum yfir það sem maður á bara alls ekki að gera? Stelpur, segið þið mér!

En svo maður verði smá raunsær, hversu oft höfum við samt séð þetta áður? Graðir unglingar á djamminu, kaflaskiptur aðstæðuhúmor í miklu magni með örlitlum skammti af ósmekklegheitum inn á milli þangað til að stefnurnar breytast í seinni hlutanum og ekta tilfinningar koma í ljós. The Inbetweeners Movie er klisja út og inn og sjaldnast óútreiknanleg, en svakalega tekst henni þó að koma manni í gott skap eftirá. Hún er mjög skemmtileg og, það sem skiptir öllu máli, alveg kók-frussandi fyndin. Sennilega ein sú fyndnasta sem ég hef séð í ár. Það segir lítið miðað við hversu glatað ár þetta hefur verið fyrir (amerískar) gamanmyndir, en engin þeirra hélt jafngóðum dampi og þessi. Það skal ég bóka.


Nú er mér farið að langa að horfa á þessar þáttaseríur. Þær eru nú ekki nema þrjár stuttar. Ætli þá Bjarnfreðarson hafi ekki verið nokkurn veginn eins og Inbetweeners-mynd okkar Íslendinga?

Hvað fannst þér um The Inbetweeners Movie?