Kvikmyndinni Gangster Squad hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu síðan að stiklur úr myndinni komu fyrst út. Ástæðan er einfaldlega sú að Gangster Squad er uppfull af stórleikurum á borð við Sean Penn, Josh Brolin, Ryan Gosling, Nick Nolte, Emma Stone og Giovanni Ribisi. Með þetta úrvalslið leikara og leikstjórann Ruben Fleischer (Zombieland) við stjórnvölinn voru væntingarnar því ansi háar.
Kvikmyndin, sem lauslega er byggð á sönnum atburðum, segir frá baráttu leynilegs lögregluliðs sem kallar sig „The Gangster Squad“ við glæpaforingjann Mickey Cohen og gengi hans sem haslaði sér völl í Los Angeles í kringum 5. áratug síðustu aldar. Í forsvari fyrir þetta leynilega lögreglulið er Sgt. John O’Mara (Josh Brolin) en hann kom heim úr seinni heimsstyrjöldinni og sá að borgin sín, Los Angeles, var ekki sú sama og þegar hann yfirgaf hana fyrir stríðið. Hann leggur því á ráðin með yfirmanni löggæslunnar (Nick Nolte) um að stofna umrædda leynilögreglusveit.
Fyrri partur myndarinnar segir því söguna af því hvernig hann finnur, með hjálp konu sinnar, réttu mennina til að skipa lögregluliðið og berjast gegn glæpunum, spillingunni og óöldinni sem ríkir í borg englanna. Seinni hluti myndarinnar sýnir svo baráttu þeirra við glæpagengi Cohen og félaga með tilheyrandi fórnum og dramatík.
Það sem stendur upp úr í þessari mynd er einfaldlega Sean Penn en sá maður virðist bara ekki fá leið á því að leika betur en mótleikarar sínir. Það er algjör unun að horfa á hann túlka kaldrifjaðan glæpaforingja sem svífst einskis í valdabaráttu sinni. Það sem hins vegar skorti í þessari mynd var betra handrit en á köflum fékk þetta samansafn úrvals leikara úr litlu að moða. Þá var oft á tíðum erfitt að tengja við karakterana og þeirra raunir og undirrituðum var svona nokkurn veginn alveg sama hvernig myndin endaði. Aftur á móti, myndinni til góða, var atburðarrásin nokkuð hröð sem gerði það að verkum að athygli áhorfandans hélst allan tímann.
Á heildina litið má segja sem svo að myndin komist hvergi nálægt stórkostlegum „gangster“ myndum eins og Godfather eða Goodfellas en hún reynir þó sitt besta og var, þegar öllu er á botninn hvolft, ágætis afþreying.