Fyrrum barnastjarnan Haley Joel Osment hefur lítið látið á sér kræla undanfarin ár, en svo virðist sem það sé búið að blása nýju lífi í leiklistarferil hans, því framundan eru ótal spennandi verkefni. Joel Osment virðist því ekki ætla að falla í þá gryfju líkt og aðrar barnastjörnur sem hætta eða leiðast út í vitleysu.
Osment kom fyrst fram sem sonur Tom Hanks í hinni geysivinsælu mynd Forrest Gump, en skaust síðan á stjörnuhiminninn fyrir hlutverk sitt sem taugaveiklaði drengurinn í The Sixth Sense, en hann hlaut Óskarsverðlaunatilnefningu fyrir leik sinn í þeirri mynd.
Í dag var frumsýnd ný stikla úr myndinni I’ll Follow You Down. Osment leikur þar son vísindamanns sem hverfur sporlaust þegar persóna Osment er aðeins kornung. Mörgum árum síðar er honum gert kunnugt að faðir hans hvarf inn í annað tímarúm og að hann geti komið föður sínum aftur til baka, en fyrst þarf hann að leysa vísindalegar þrautir upp á sínar eigin spýtur.
Myndin hefur verið á flakki um kvikmyndahátíðir síðustu misseri en er áætluð í almennar sýningar í haust. Með önnur hlutverk fara þau Gillian Anderson, Victor Garber og Rufus Sewell. Myndinni er leikstýrt af Richie Mehta. Hér að neðan má sjá nýjustu stikluna úr myndinni.
Framundan hjá Joel Osment eru spennandi verkefni og má þar telja nýjustu kvikmynd Kevin Smith og kvikmyndina Entourage, sem er byggð á þáttunum vinsælu. Joel Osment er því staðráðinn í að sanna sig á ný sem fullorðins leikari.