Fúsi vann þrenn verðlaun í Lübeck

Fúsi, kvikmynd Dags Kára Péturssonar, vann þrenn verðlaun á norrænum kvikmyndadögum í Lübeck og Hrútar, mynd Gríms Hákonarsonar sem var nýverið tilnefnd sem besta myndin á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum, vann ein verðlaun.

Fúsi vann áhorfendaverðlaun hátíðarinnar og Interfilm-kirkju verðlaunin, auk þess sem aðalleikarinn Gunnar Jónsson hlaut heiðursverðlaun fyrir sína frammistöðu, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

fúsi

Dagur Kári og Gunnar Jónsson voru báðir viðstaddir hátíðina og veittu verðlaununum viðtöku. ‘

Hrútar, sem var opnunarmynd hátíðarinnar, hlaut verðlaun frá baltneskri dómnefnd hátíðarinnar fyrir frammúrskarandi norræna kvikmynd. Grímar Jónsson, framleiðandi, veitti verðlaununum viðtöku.

Gott gengi Fúsa heldur þar með áfram. Auk þess að hafa unnið til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs var Fúsi heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín fyrr á þessu ári og hefur síðan farið sigurför um kvikmyndahátíðir víða um heim

Til dæmis hlaut hún þrenn verðlaun á Tribeca-hátíðinni vorið 2015; sem besta leikna mynd, fyrir besta handrit og fyrir besta leikara í aðalhlutverki í flokki alþjóðlegra kvikmynda. Fúsi hefur nú unnið til níu verðlauna alls og verið sýnd á hátíðum á borð við Karlovy Vary-kvikmyndahátíðinni í Tékklandi, alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Sao Paulo og BFI London Film Festival.

Sigurför Hrúta heldur einnig áfram. Hrútar hefur nú keppt til verðlauna á 10 alþjóðlegum kvikmyndahátíðum, unnið aðalverðlaunin á sjö þeirra og alls unnið til 14 verðlauna.