Sena frumsýnir teiknimyndina The Croods á morgun, miðvikudaginn 27. mars en samkvæmt tilkynningu frá Senu er hér um að ræða eina stærstu frumsýningu á erlendri mynd á Íslandi frá upphafi, en myndin verður sýnd í 19 kvikmyndasölum!
The Croods er ný þrívíddarteiknimynd frá Dreamworks um forsögulega fjölskyldu sem neyðist til að halda af stað í sitt fyrsta ferðalag þegar hellirinn þeirra hrynur saman. „The Croods er eftir þá Kirk De Micco og Chris Sanders sem saman og hvor í sínu lagi eiga að baki nokkrar þekktustu teiknimyndir síðari ára eins og Aladdin, Mulan, The Lion King, Lilo og Stich og How To Train Your Dragon svo einhverjar séu nefndar af mörgum,“ segir í tilkynningu Senu.
Sjáðu íslenska stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:
„Þetta er einstaklega litrík og fyndin saga, en um leið bæði spennandi og áhrifamikil. Croods-fjölskyldan hefur búið í sama hellinum alla sína ævi enda felst helsta heillaráð fjölskylduföðurins í því að forðast allar hættur með því að prófa aldrei neitt nýtt, þar með talið að yfirgefa hellinn. Dag einn grípa örlögin og náttúran þó í taumana þegar jarðhræringar verða til þess að hellirinn hrynur saman og þar með hverfurskjólið sem Croods-fjölskyldan hefur reitt sig á alla tíð. Um leið opnast gáttir að veröldinni fyrir utan sem fjölskyldan hefur aldrei séð áður. Í fyrstu líst fjölskylduföðurnum ekkert á að halda
af stað út í heiminn og kanna nýjar lendur en þar sem heimilið er horfið er um ekkert annað að velja en að finna nýtt.“
The Croods verður bæði sýnd með íslensku og ensku tali. Um íslenska talsetningu sjá þau Ingvar E. Sigurðsson, Þórunn Erna Clausen, Sigurður Þór Óskarsson, Margrét Vilhjálmsdóttir, Guðjón Davíð Karlsson, Lísa Pálsdóttir, Birgitta Björk Baldvinsdóttir og Víðir Guðmundsson. Leikstjóri er Rósa Guðný Þórsdóttir.
The Croods verður frumsýnd á morgun í Smárabíói, Háskólabíói, Laugarásbíói, Egilshöll, Álfabakka og Borgarbíói Akureyri og á Ísafirði, Sauðarkróki og Akranesi yfir páskana.
Leikstjórar: Kirk De Micco og Chris Sanders.
Handrit: Kirk De Micco og Chris Sanders.
Aðalhlutverk: Nicolas Cage, Ryan Reynolds og Emma Stone.
Frumsýnd: 27. mars.
Hvar: Smárabíó, Háskólabíói, Laugarásbíó, Egilshöll, Álfabakka, Ísafirði, Sauðarkróki, Akranesi og Borgarbíó Akureyri.