Sambíóin frumsýna á föstudaginn næsta, 25. janúar, myndina Monsters Inc. eða Skrímsli hf. í íslenskri þýðingu, í þrívídd. Myndin er ein af stærstu myndum Disney/Pixar frá upphafi, en von er á framhaldi af þessari mynd í bíó næsta sumar, en sú mynd ber heitið Monsters University eða Skrímsla Háskólinn.
Sjáðu stikluna úr Skrímsli hf. 3D hér að neðan:
Í tilkynningu frá Sambíóunum segir að það megi til sanns vegar færa að heil kynslóð nýrra kvikmyndaunnenda hafi vaxið úr grasi síðan Skrímsli hf. var gerð, „en þessi tímamótamynd höfðar auðvitað ekki síður til fullorðinna sem hafa húmor fyrir skemmtilega teiknuðum sögum og ævintýrum,“ segir í tilkynningunni.
Eins og allir vita búa skrímsli í Skrímslaborg og fá orku frá öskrum barna sem hræðast þau. Staðreyndin er hins vegar að sum skrímslin í Skrímslaborg eru ekki síður hrædd við börn en börnin við þau. Þrátt fyrir það neyðast skrímslin til að halda áfram að hræða börnin því annars verður borgin þeirra orkulaus.
Og nú er illt í efni. Málið er að upp á síðkastið hefur orðið sífellt erfiðara að hræða börn þannig að þau gefi frá sér öskur og þar með orku. Sum
þeirra eru meira að segja alveg hætt að vera hrædd við skrímsli og öskra bara alls ekki neitt.
Við þessum yfirvofandi orkuskorti þarf auðvitað að bregðast með auknum ótta en málin taka heldur betur nýja stefnu þegar lítil stúlka eltir grænbláa skrímslið Sölmund inn í Skrímslaborg …
Aðalhlutverk: John Goodman, Billy Crystal, Steve Buscemi og Jennifer Tilly,
Íslenkar raddir: Ólafur Darri Ólafsson, Felix Bergsson, Bríet Ólína Kristinsdóttir, Magnús Ragnarsson, Pétur Einarsson og Hjálmar Hjálmarsson
Leikstjórn: Pete Docter, David Silverman og Lee Unkrich
Sýningarstaðir: Sambíóin Egilshöll, Álfabakka, Kringlunni, Keflavík og Akureyri
Aldurstakmark: Öllum Leyfð
Fróðleiksmolar til gamans:
• Skrímsli hf. var tilnefnd til fernra Óskarsverðlauna og hlaut þau
fyrir besta lagið (If I Didn’t Have You – Ef ég hefði þig ekki), en
frábær tónlist myndarinnar er samin af Randy Newman.