Frumsýning: Kon-Tiki

Kvikmyndaklúbburinn Græna ljósið frumsýnir hina norsku Óskarstilnefndu mynd Kon-Tiki á föstudaginn næsta, 8. febrúar í Bíó Paradís og Háskólabíói.

Í tilkynningu Græna ljóssins  segir að Kon-Tiki sé meistaraverk sem enginn kvikmyndaunnandi megi láta fram hjá sér fara.

Sjáðu stikluna fyrir myndina hér að neðan:

Myndin fjallar um norska náttúruvísindamanninn og landkönnuðinn Thor Heyerdahl. Hann ásetti sér að sanna að menn hefðu siglt frá Perú til Pólynesíu og numið þar land fyrir 1500 árum.

Í Kon-Tiki er sagt frá undirbúningi Heyerdahls, ekki síst leit hans að mönnum sem voru nógu hugaðir til að sigla með honum tæplega 8.000 kílómetra leið á fleka smíðuðum að fyrirmynd frumbyggjanna.

Thor Heyerdahl gerði á sínum tíma heimildarmynd um þessa svaðilför og hlaut Óskarsverðlaun fyrir árið 1951.

Kon-Tiki var tilnefnd til Golden Globe- og nú Óskarsverðlauna sem besta erlenda mynd ársins.

Leikstjórn: Joachim Rønning og Espen Sandberg.
Aðalhl.: Pål Sverre Valheim Hagen, Anders Baasmo Christiansen og Gustaf Skarsgård.
Frumsýnd: 8. febrúar.
Sýnd í: Bíó Paradís og Háskólabíói.

Myndin var fyrst sýnd hér á landi á RIFF, Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík sl. haust.