SAMbíóin frumsýna föstudaginn 19. október nk. myndina Hope Springs með þeim Meryl Streep, Tommy Lee Jones og Steve Carell, en myndin fjallar um hjón sem eftir 31 ár undir sama þaki ákveða að blása nýju lífi í sambandið.
Í tilkynningu frá SAMbíóunum segir að Hope Springs sé í aðra röndina kómísk sýn á hjónabandið og samlíf hjóna en um leið sé undirtónninn alvarlegur og myndin í heild raunsæ lýsing á því hvað gerist þegar fólk leyfir sér að festast um of í viðjum vanans. „Handritið þykir einkar vel skrifað og um leið og það kemur engum á óvart að Meryl Streep sýni stórleik í hlutverki eiginkonunnar hafa þeir Tommy Lee Jones og Steve Carell hlotið mikið lof fyrir túlkun sína á persónum sem eru gjörólíkar öllum öðrum sem þeir hafa leikið hingað til og eru helst þekktir fyrir,“ segir í tilkynningunni.
Söguþráður myndarinnar er eftirfarandi: Kay og Arnold hafa verið hjón í 31 ár og komið tveimur börnum á legg. Óhætt er að segja að eftir allan þennan tíma sé lítið „fútt“ eftir í sambandi hjónanna og grámygla hversdagsins allsráðandi í samlífi þeirra. Við þetta á Kay erfitt með að sætta sig, öfugt við Arnold sem virðist ekkert hafa við tilbreytingaleysið að athuga.
Svo fer að Kay sannfærir Arnold um að það gæti orðið þeim sjálfum og hjónabandi þeirra til góðs að skreppa í vikulangt frí til bæjarins Hope Springs og sækja þar námskeið hjá sálfræðingi sem hefur sérhæft sig í hjónabandsráðgjöf …
Smelltu hér til að horfa á sýnishorn úr myndinni.