Keanu Reeves myndin John Wick sló óvænt í gegn árið 2014, en myndin fjallaði um mann að nafni John Wick, fyrrverandi leigumorðingja, sem neyddist til að rifja upp ómælda hæfileika sína í faginu þegar fyrrverandi félagi hans, sem hafði verið ráðinn til að drepa hann, lætur til skarar skríða.
Tilkynnt var um gerð framhaldsmyndar skömmu eftir frumsýningu myndarinnar, þegar ljóst var hve vel myndinni var tekið. Fregnir hafa borist af ráðningum í hlutverk, m.a. sameiningu Matrix leikaranna, Reeves sjálfs og Laurence Fishburne, auk Ruby Rose, Common og Peter Stormare.
Nú er loks komið að sjálfum söguþræði myndarinnar, en hann var gerður opinber í gær. Handrit myndarinnar skrifar Derek Kostad og leikstjóri er Chad Stahelski, en hann bæði skrifaði handrit og leikstýrði fyrri myndinni.
Söguþráðurinn hljómar eitthvað á þessa leið: Í mynd númer tvö neyðist John Wick aftur til að taka upp fyrri iðju, eftir að fyrrum samstarfsmaður hans ætlar sér að ná undirtökunum í skuggalegum alþjóðlegum samtökum leigumorðingja. Wick og hann hafa með sér fóstbræðralag, og John fer því til Rómar á Ítalíu þar sem hann þarf að takast á við heimsins illvígustu morðingja.
Nú er bara að bíða frekari fregna af því hver mun leika aðal þorparann, og aðrar helstu persónur.