Breski leikarinn Kingsley Ben-Adir, sem leikur jamaíska reggítónlistarmanninn Bob Marley í bíómyndinni Bob Marley: One Love sem komin er í bíó hér á Íslandi, lagði mikið á sig í undirbúningi fyrir tökur myndarinnar.
Bob Marley er einn áhrifaríkasti popptónlistarmaður tuttugustu aldarinnar.
Meðal þess sem leikarinn gerði var að fara í stranga megrun með þeim árangri að hann missti sextán kíló.
Leikstjóri myndarinnar Reinaldo Marcus Green segir í samtali við The Daily Telegraph: „Hann missti umtalsverða þyngd – og gróf djúpt ofaní önnur persónueinkenni Marley. Kingsley er ekki lítill maður, hann er stærri en ég sem þýðir að hann er stór. Hann svo sannarlega grennti sig verulega.“
Mynd um líf og störf hins goðsagnakennda reggí tónlistarmanns Bob Marley....
Lærði á gítar
Á mánuðunum átta sem hann notaði til að undirbúa sig lærði Ben-Adir að spila á gítar, að syngja og dansa auk þess sem hann horfði á hundruði klukkutíma af myndböndum af Marley að syngja og tala.
„Hann lagði sig fram um að ná mállýskunni, en ekki bara þessari almennu, heldur því hvernig Bob talaði hana, sem er eiginlega sérstakt tungumál út af fyrir sig. Þannig að það er engu logið um að hann gekk ansi langt fyrir myndina. Hann leitaði að dýpið til að reyna að skilja Bob, til að búa til þessa mynd af honum,“ segir Green.
Snilldarniðurstaða
Hann bætir við að niðurstaðan sé ekkert minna en snilldarleg. „Hann er stjarna, hvort sem hann hefði leikið í þessari mynd eða ekki, en þessi kvikmynd kemur honum svo sannarlega á kortið.“
Um leið og Green sá Ben-Adir á myndbandi í áheyrnarprufunum sá hann hvað hann var fær um. „Kingsley hefur ótrúlega sterka nærveru. Hann sýndi það svo sannarlega á myndbandinu að það væri mögulegt að gera þessa kvikmynd,“ segir Green.
Við gerð myndarinnar vann Green náið með börnum Marleys, þar á meðal sonunum Ziggy og Stephen, og dætrunum Cedella og ekkjunni Rita, og öðrum nánum samferðarmönnum tónlistarmannsins.
Neville Garrick, vinur Marleys, sem lést í nóvember sl. var ráðgjafi í myndinni og var á tökustað á hverjum degi. Green segir um hann: „Hann var listrænn stjórnandi Bobs. Hann gerði alla lýsingu fyrir tónleikana, og hannaði plötuumslögin. Þannig að það voru nokkrir lykilaðilar í lífi Bobs sem við gátum leitað til.“
Punktar :
-Marley, sem átti svarta móður og hvítan föður, ólst upp í fátækt og hóf söngferil sinn á sjöunda áratug síðustu aldar með hljómsveitinni The Wailers.
-Í myndinni er fókus settur á áttunda áratuginn þegar Marley lifði af banatilræði í Jamaíka og flúði til Lundúna.
-Þekkt lög Marley eru : Get Up, Stand Up; No Woman, No Cry og Could You Be Loved.
-Hann lést úr krabbameini árið 1981, 36 ára gamall.