Í stuttu máli er „The Snowman“ fín afþreying og stemningsrík spennumynd en of flókin framvinda og lausir endar koma í veg fyrir að hún slái alveg í gegn.
Rannsóknarlögreglumaðurinn Harry Hole (Michael Fassbender) stríðir ekki einungis við ýmsa persónulega djöfla þegar hann rannsakar morðmál af subbulegri endanum þar sem morðinginn afhausar fórnarlömb sín og skilur eftir grimmilega snjókarla á vettvangi glæpsins sem eins konar nafnspjald.
„The Snowman“ er byggð á skáldsögu eftir norska rithöfundinn Jo Nesbö og kynnir til sögunnar norska lögreglumanninn Harry Hole sem er unnendum norrænna glæpasagna vel kunnugur. Eins og flestir skandinavískir laganna menn þá er Harry drykkfelldur, einrænn og haldinn sjálfseyðingarhvöt og persónuleg tilvera er barátta við drauga fortíðar og gjarnan geldur vinnuframlag hans fyrir. Harry er þó hálfgerð goðsögn meðal norskra lögreglumanna og á sér velvildarmenn innan deildar sinnar og nýtur stuðnings til að halda áfram störfum.
Gagnrýnendur sem og notendur samfélagsmiðla víðs vegar hafa keppst við hakka „Snowman“ í spað og útlitið er ekki gott fyrir almenna frumsýningu vestanhafs í næstu viku. Helst er fundið að því hve illskiljanleg framvindan er, léleg persónusköpun og magn lausra enda þegar uppi er staðið. Þegar sýnishorn myndarinnar er skoðað má greinilega sjá nokkur atriði sem eru ekki í endanlegri útgáfu og margar línurnar sem heyrast þar er hvergi að finna heldur. Líklegt er að ráðist hafi verið í endurtökur og einhverjir ráðamenn í framleiðsludeildinni hafi sett út á eitt og annað og því hafist handa við að bæta úr.
Þessum gagnrýnanda þótti þó „The Snowman“ hin besta afþreying enda svolítið hallur undir þessa norrænu krimma sem myndin sækir innblástur og efniviðinn í. Persónu Harry Hole er gerð fín skil og Fassbender smellpassar í hlutverkið. Auðvitað er það enginn hægðarleikur að troða inn í eina mynd efniviði sem nokkrar bækur hafa lagt grunninn að en þessi myrka veröld Harrys er mjög flott sjónrænt séð og persónur áhugaverðar þó ekkert sérlega vel útfærðar.
Framvindan er þó frekar flókin og erfitt að fylgja eftir og lausir endar eru þónokkrir og valda heilabroti að sýningu lokinni. Margir bíógestir kvarta gjarnan undan tilhneigingu bandarískra mynda að einfalda sögu of mikið og útskýra allt í þaula en slíkt er ekki upp á teningnum hér. Samhliða rannsókn Harrys er hliðarsaga í gangi sem gerir söguna enn flóknari og hér hefði undirritaður þurft aðeins meiri einföldun en líta má svo á að fullt er hægt að gera ef Harry Hole myndabálkur er í uppsiglingu. Vonandi tekur Kaninn við sér og flykkist á myndina því efniviðurinn er lofandi og Harry er flottur karakter sem hægt er að gera meira við.
Í grunninn er margt gott við „The Snowman“ þó margt mætti betur fara. Sjónrænt útlit er frábært og mögnuð náttúrufegurð Noregs nýtur sín vel sem og vel valdir tökustaðir í borgunum Bergen og Ósló. Mikil stemning myndast og ónotalegt andrúmsloft hangir yfir myndinni frá byrjun til enda eins og norrænum krimma sæmir. Nokkur verulega hrottaleg spennuatriði eru mjög vel útfærð og grimmilegt morðvopnið (hugmyndin að því örugglega fengin að láni frá „Trauma“ (1993) eftir Dario Argento) fær viðkvæma til að líta undan. Fassbender er mjög góður og aðrir leikarar standa sig allir með prýði þó hlutverkin bjóði ekki upp á mikil tilþrif. Skrítnast er þó að sjá Val Kilmer en leikarinn lítur ekki vel út og rödd hans er döbbuð og frekar hroðvirknislega.
„The Snowman“ er hin fínasta afþreying, heldur dampi og nær upp góðri spennu en handritið hefði mátt vera betra og aðeins skýrara. Líklega hafa endurtökur og „betrumbætur“ aðeins hrært í upprunalega söguþræðinum en mögulega skila sér tvær útgáfur af myndinni þegar hún kemur á Blu-ray og DVD.