Kvikmyndin Fjögur skipti ( Le Quattro Volte ) hlaut um helgina Gyllta lundann, aðalverðlaun Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík RIFF sem lauk í dag, sunnudag. Myndin segir frá gömlum hjarðmanni sem eyðir ævikvöldinu í friðsælu miðaldaþorpi í fjallshlíðum Kalabríu á Ítalíu þar sem hann gætir geita. Myndin er ljóðræn sýn á hringrás lífs og náttúru, og órjúfanlegar hefðir á tímalausum stað.
Í umsögn dómnefndar segir: „Í annarri mynd sinni, hinni metnaðarfullu og djúphugsuðu Fjögur skipti, rannsakar leikstjórinn hugmyndir Pýþagórasar um flökkulíf sálarinnar í fjórum mismunandi sögum um gamlan hirði, geit, tré og kolamola, sem öll tengjast með sálinni sem flakkar á milli. Myndin er stórfenglega hugsuð og tekin, og vekur til umhugsunar án þess að notast við eina einustu línu af talmáli, auk þess að luma á lúmskum húmor.“
Formaður dómnefndar var Cameron Bailey, stjórnandi Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Toronto, og með honum í dómnefnd voru þau Valdís Óskarsdóttir, klippari og leikstjóri, og Laura Kern, ritstjóri Film Comment.
Á heimasíðu kvikmyndahátíðarinnar, riff.is, segir að athyglisvert sé að FIPRESCI verðlaunin hafi fallð sömu mynd í skaut en þau eru veitt af samnefndum alþjóðasamtökum kvikmyndagagnrýnenda. Það sýni svo ekki verður um villst að þarna sé gæðamynd á ferðinni.
Áhorfendaverðlaun RIFF féllu að þessu sinni í skaut myndarinnar Littlerock, sem segir af tveimur japönskum ungmennum sem sitja föst í smábæ í Kaliforníu og kynnast þar öðruvísi Ameríku en vonir stóðu til að finna.
Rúmenska myndin Á morgun (Tomorrow) eftir Marian Crisan hlaut Kvikmyndaverðlaun kirkjunnar að þessu sinni. Myndin segir frá rúmenskum öryggisverði sem lofar ólöglegum tyrkneskum innflytjanda að komast yfir landamærin til Ungverjalands. Verðlaunin voru veitt í fimmta sinn í ár.
Gullna eggið, sem eru verðlaun til viðurkenningar fyrir unga leikstjóra, hreppti myndin Farþeginn (The Passenger) eftir færeyska leikstjórann Sakaris Fridi Stora.
Umhverfisverðlaunin féllu myndinni Verndarar jarðar (Earth Keepers) í skaut, en myndin er heimildarmynd um umhverfissinnann Mikael Rioux frá Québec í Kanada.
Á heimasíðu Riff segir að hátíðin vaxi ár frá ári og aðsókn hafi verið 10% meiri í ár en í fyrra. Alls sóttu 25.000 manns hátíðina í ár.
Riff snýr aftur að ári liðnu og verður haldin næst dagana 22. september til 2. október 2011.