Fín en auðgleymd grimmd

Fólk eldist og hrörnar. Ég get varla ímyndað mér eðlilegri staðreynd í lífinu. Sumir missa „kúlið“ en aðrir ekki. Oliver Stone (eða „stoned Oliver,“ fyrst kannabis er hér til umfjöllunnar), maðurinn sem á tímapunkti var einn beittasti hnífurinn í skúffu vestrænu kvikmyndanna, hefur reynt að sannfæra aðdáendur sína í meira en áratug núna að hann sé enn með einhverjar tennur í sér en bitið er enn þá eitthvað svo aumt. Það er alveg hægt að segja að Savages stefni í réttu áttina, en alveg eins og megnið af því sem leikstjórinn hefur framleitt undanfarin ár eru aðeins nokkrir góðir kaflar á boðstólum sem umkringja heldur óspennandi heildarpakka. World Trade Center tel ég samt ekki með. Hún er vasaklútamygla út og inn og á ekkert erindi inn á þennan mistæka en engu að síður athyglisverða feril hjá þessum ágæta klikkhaus. Þegar líður að síðustu dögum mannsins tel ég samt engar líkur vera á því að Savages verði reglulega nefnd annars staðar en í upptalningarunum.

Ef einhver ungur, óþekktur, upprennandi leikstjóri hefði pungað út afrakstri sem þessum þá yrði auðveldara að fyrirgefa suma þætti og afskrifa myndina sem bara fínastu glæpamynd, sem hún er. Þetta er nefnilega stílísk, vel skotin, huggulega ljót og nokkuð skemmtileg mynd en gerir að vísu ekkert fyrir mann að henni lokinni og missir hiklaust allt niður um sig í lokaatriðunum, sem gerir eftirbragðið augljóslega ekkert betra. Ef sóst er í prýðisafþreyingu með ásættanlegum endi skal gæta þess að yfirgefa sætið áður en „svindl-endirinn“ byrjar. Hann er býsna hræðilegur og algjörlega úr takt við afganginn á efninu. Annaðhvort hefur einhver framleiðandi verið algjör villimaður (en ekki hvað?) gagnvart myndinni í eftirvinnslu og heimtað nýjan endi – og þá án þess að taka þann gamla út – eða Stone veit bara hreinlega ekkert hvað snýr upp eða niður lengur. Hann skemmir ekki bara fullt, heldur næstum því allt!

Mér gat ekki verið meira sama um hvern einasta aðila í myndinni, sem er annað en það sem sagan ætlast til. Það er gaman að fylgjast með leikurunum en persónurnar eru frekar litríkar, einhliða teiknimyndafígúrur en athyglisverðar manneskjur. Benicio Del Toro stendur tvímælalaust upp úr hópnum en samkeppnin er hvort eð er ekki mikil. Flestir eru fínir og greinilega að njóta sín meira en lítið en þetta er allt frekar rútínubundið hjá flestum. Del Toro er samt eini gæinn sem skarar eitthvað fram úr og er hægt að kalla minnisstæðan. Taylor Kitch og Aaron Johnson taka sig reyndar vel út sem söguhetjurnar (skil heldur ekki alveg af hverju Kitch hefur fengið svona vonda athygli, þetta er fínasti leikari og teygir smávegis á hæfileikum sínum hér). Þeir eru gott dúó og ná allavega miklu betur saman á skjánum heldur en annar hvor þeirra gerir með Blake Lively. Mikið djöfull er ég byrjaður að fá ógeð á þessari stelpu.

Savages rúllar samt í gegn án þess að tefja of mikið eða flækja hlutina meira en þarf. Stíll leikstjórans er líflegur, sem kemur að vísu ekki á óvart, en það sem kemur frekar á óvart er hversu bjartur og litríkur hann er. Stone heldur sig líka allan tímann á jörðinni, án þess að fara alveg yfir strikið eins og í Natural Born Killers eða U-Turn, þó ég efa ekki að slík orka hefði gefið myndinni meira sérstæð einkenni. Rammarnir eru engu að síður flottir og myndar birtan ofsalega skemmtilega andstæðu við skepnuskapinn í sögunni. Það sést að myndin hefur greinilega verið unnin af fagmanni úr fjarska en um leið og hún er komin í gang er innihaldslega séð erfiðara að kaupa það að þetta komi frá manni sem hefur gert kvikmyndir í þrjá áratugi. En ég ætti kannski bara að vera þakklátur. Allt sem kemur frá Stone sem heitir hvorki Alexander né World Trade Center getur varla verið annað en jákvætt. Segjum fínt í besta falli.

 
(6/10)

Mæli miklu frekar með THE Savages frá 2007 (m. Phillip Seymour Hoffman). Allt öðruvísi mynd en engu að síður betri nýting á tíma.