Fimmta Stockfish hátíðin að hefjast í Bíó paradís

Það verður mikið um dýrðir næstu tvær vikurnar í Bíó Paradís þegar Stockfish kvikmyndahátíðin fer þar fram í fimmta skipti. Hátíðin hefst á fimmtudaginn næsta, þann 28. febrúar með sýningu opnunarmyndarinnar Brakland,og stendur til 10. mars.

Dagskrá hátíðarinnar er sérlega kræsileg þetta árið og kvikmyndaáhugamenn eiga von á góðu. Kíktu á stiklu hátíðarinnar hér fyrir neðan:

Eins og fram kemur í tilkynningu frá Stockfish þá verða sýndar margverðlaunaðar kvikmyndir og heimildamyndir frá öllum heimshornum á hátíðinni ásamt því sem boðið verður upp á aðra viðburði. Myndirnar sem sýndar verða hafa verið sýndar á stærstu hátíðum heims eins og Cannes, Sundance og Toronto Film Festival.

Á hátíðinni verður einnig í fyrsta sinn hreyfimyndahátíðin Physical Cinema Festival undir leiðsögn Helenu Jónsdóttur. Physical Cinema Festival sýnir yfir 30 listrænar stuttmyndir, vídeó innsetningar og heimildamyndir sem allar eiga það sameiginlegt að vera á landamærum dans, myndlistar, hljóðheims og kvikmynda.

Sérvaldar verðlaunamyndir

Eins og segir í tilkynningunni leggur Stockfish áherslu á sérvaldar verðlaunamyndir víðs vegar að úr heiminum og glæsilega og fjölbreytta dagskrá. Þá fá gestir mikla innsýn í gerð myndanna og
tækifæri til að eiga samtal við leikstjóra eftir sýningar með Q&A, auk þess sem boðið verður upp á Masterclass – og pallborðsumræður.

Hluti af hátíðinni eins og fyrri ár er Sprettfiskurinn en þar fær bæði ungt og reynt kvikmyndagerðarfólk tækifæri til að sýna stuttmyndir sínar, en verðlaunahafi Sprettfisksins fær eina milljón króna í verðlaun frá KUKL.

Í tilkynningunni er vitnað í erlenda blaðamenn sem sótt hafa hátíðina heim, og einn af þeim er David Jenkins ritstjóri kvikmyndavefjarins Little White Lies, en hann segir: „Ég skemmti mér mjög vel á Stockfish – starfsfólkið var vinalegt, dagskráin sterk, viðburðir vel valdir, skipulag til fyrirmyndar, áhugaverðir gestir og frábært tækifæri til að upplifa Ísland.“

The House that Jack Built eftir Lars Von Trier verður sýnd á hátíðinni.

Kvikmyndirnar sem sýndar verða á Stockfish munu allar birtast á sýningartímasíðu Kvikmyndir.is og í kvikmyndir.is appinu. Með því að smella á myndirnar er hægt m.a. að sjá leikara, söguþræði og stiklur úr öllum kvikmyndunum.

Góða skemmtun á Stockfish!