Það verður mikið um dýrðir næstu tvær vikurnar í Bíó Paradís þegar Stockfish kvikmyndahátíðin fer þar fram í fimmta skipti. Hátíðin hefst á fimmtudaginn næsta, þann 28. febrúar með sýningu opnunarmyndarinnar Brakland,og stendur til 10. mars.
Dagskrá hátíðarinnar er sérlega kræsileg þetta árið og kvikmyndaáhugamenn eiga von á góðu. Kíktu á stiklu hátíðarinnar hér fyrir neðan:
Eins og fram kemur í tilkynningu frá Stockfish þá verða sýndar margverðlaunaðar kvikmyndir og heimildamyndir frá öllum heimshornum á hátíðinni ásamt því sem boðið verður upp á aðra viðburði. Myndirnar sem sýndar verða hafa verið sýndar á stærstu hátíðum heims eins og Cannes, Sundance og Toronto Film Festival.
Á hátíðinni verður einnig í fyrsta sinn hreyfimyndahátíðin Physical Cinema Festival undir leiðsögn Helenu Jónsdóttur. Physical Cinema Festival sýnir yfir 30 listrænar stuttmyndir, vídeó innsetningar og heimildamyndir sem allar eiga það sameiginlegt að vera á landamærum dans, myndlistar, hljóðheims og kvikmynda.
Sérvaldar verðlaunamyndir
Eins og segir í tilkynningunni leggur Stockfish áherslu á sérvaldar verðlaunamyndir víðs vegar að úr heiminum og glæsilega og fjölbreytta dagskrá. Þá fá gestir mikla innsýn í gerð myndanna og
tækifæri til að eiga samtal við leikstjóra eftir sýningar með Q&A, auk þess sem boðið verður upp á Masterclass – og pallborðsumræður.
Hluti af hátíðinni eins og fyrri ár er Sprettfiskurinn en þar fær bæði ungt og reynt kvikmyndagerðarfólk tækifæri til að sýna stuttmyndir sínar, en verðlaunahafi Sprettfisksins fær eina milljón króna í verðlaun frá KUKL.
Í tilkynningunni er vitnað í erlenda blaðamenn sem sótt hafa hátíðina heim, og einn af þeim er David Jenkins ritstjóri kvikmyndavefjarins Little White Lies, en hann segir: „Ég skemmti mér mjög vel á Stockfish – starfsfólkið var vinalegt, dagskráin sterk, viðburðir vel valdir, skipulag til fyrirmyndar, áhugaverðir gestir og frábært tækifæri til að upplifa Ísland.“
Kvikmyndirnar sem sýndar verða á Stockfish munu allar birtast á sýningartímasíðu Kvikmyndir.is og í kvikmyndir.is appinu. Með því að smella á myndirnar er hægt m.a. að sjá leikara, söguþræði og stiklur úr öllum kvikmyndunum.
Góða skemmtun á Stockfish!