Fyrsta Fate of the Furious ( Fast 8 ) stiklan, sem frumsýnd var við hátíðlega athöfn í New York á sunnudaginn, hefur slegið mánaðargamalt met stiklunnar úr Fríðu og dýrinu, eða Beauty and the Beast. Horft var á stikluna 139 milljón sinnum á fyrsta sólarhringnum frá því hún var frumsýnd.
Athöfnin í New York þegar stiklan var frumsýnd breiddi úr sér allt frá Time Square, þar sem stiklan var sýnd á 33 ljósaskiltum samtímis, og yfir í NBC sjónvarpsþáttinn Football Night in America. F. Gary Gray, leikstjóri myndarinnar, og allir aðalleikarar, þar á meðal Vin Diesel og Dwayne Johnson, voru viðstaddir frumsýninguna.
Það verður spennandi að sjá hvort að myndin, sem er að hluta til tekin upp á Íslandi, muni ná sömu vinsældum og síðasta mynd, Furious 7, sem er tekjuhæsta myndin í seríunni, með meira en einn milljarð Bandaríkjadala í tekjur af sýningum um heim allan.
Aðrir helstu leikarar í Fate of the Furious eru Tyrese, Michelle Rodriguez, Ludacris, Jason Statham, Kurt Russell, Charlize Theron og Helen Mirren.
Myndin kemur í bíó 14. apríl nk.
Sjáðu stikluna úr myndinni hér fyrir neðan: