Síðasta myndin í Hobbita-þríleik Peter Jackson gæti fengið nýtt nafn, ef marka má einn stærsta aðdáendaklúbb Toilken-ævintýranna, The One Ring.
Upprunalega átti The Hobbit aðeins að vera tvær myndir en seinna meir var þeim breytt í þrjár og bætti Jackson inn titlinum The Desolation of Smaug fyrir aðra myndina, en hélt titlinum á þriðju myndinni, There and Back Again.
Nú virðist sem framleiðslufyrirtækið New Line Cinema sé að fara að breyta nafninu yfir í Into The Fire og vísar titillinn í einn kafla úr bókinni. Ástæðan fyrir breytingunni ku að vera vegna þess að There and Back Again gæti verið villandi fyrir áhorfendur og að sá nýji sé sterkari og hafi meira markaðsgildi heldur en sá gamli. Einnig hafa verið getgátur um það hvort framleiðslufyrirtækið breyti síðustu myndinni í tvo kafla sem verða sýndir með stuttu millibili, líkt og Harry Potter og The Hunger Games-myndirnar hafa gert með sínar síðustu myndir.
Hvort nafninu verði breytt eður ei þá verður myndin frumsýnd þann 17. desember næstkomandi.