Evrópsk kvikmyndahátíð um allt land

Í júnímánuði efna Evrópustofa og Bíó Paradís enn á ný til Evrópskrar kvikmyndahátíðar, en að þessu sinni verður boðið upp á brot af hinu besta í evrópskri kvikmyndagerð hringinn í kringum landið dagana 1.- 10. júní. Enginn aðgangseyrir verður á hátíðina.

Leikar hefjast með sérlegri hátíðarsýningu í Hlégarði í Mosfellsbæ sunnudaginn 1. júní kl 14:30 þar sem hin margverðlaunaða danska fjölskyldumynd Antboy verður sýnd með íslenskri talsetningu. Evrópsk kvikmyndahátíð heimsækir síðan Ólafsvík, Hólmavík, Súðavík, Blönduós, Húsavík, Vopnafjörð, Djúpavog, Vík í Mýrdal og Flúðir 2. -10. júní, kl. 16.00, 18.00, 20.00.

eff

Hringferðin nýtur stuðnings Kvikmyndamiðstöðvar Íslands en Evrópulöndin eru stærstu samstarfsaðilar Íslands í kvikmyndagerð. Fjölmargar íslenskar kvikmyndir hafa notið ríkulegs stuðning af MEDIA áætlun Evrópusambandsins en frá því að Íslendingar hófu þátttöku í kvikmynda- og margmiðlunaráætlun ESB hafa íslensk kvikmyndafyrirtæki og íslenskar kvikmyndir fengið tæpan milljarð í víkjandi lánum og styrkjum, eða u.þ.b. 48 milljónir á ári í 21 ár.

Hér að neðan er hægt að kynna sér þær myndir sem sýndar eru.

Antboy

Leikstjóri: Ask Hasselbach

Hinn 12 ára gamli Palli er bitinn af maur og öðlast við það ofurhetjukrafta. Með hjálp vinar síns lærir hann að beita kröftum sínum en eins og í sannri ofurhetjumynd líður ekki á löngu þar til illmennið Flóin stígur fram á sjónarsviðið og hefst þá barátta góðs og ills fyrir alvöru.

Myndin var valin besta barna- og unglingamyndin á hinni rómuðu Robert verðlaunahátíð í Danmörku árið 2014 og einnig tilnefnd sem besta barnamyndin á kvikmyndahátíðinni í Tallin.

Myndin er dönsk að uppruna og hentar fimm ára og eldri. Hún er talsett á íslensku.

Málmhaus

Leikstjóri: Ragnar Bragason

Æska Heru Karlsdóttur er áhyggjulaus í sveitinni þar til harmleikur dynur yfir. Eldri bróðir hennar deyr af slysförum og Hera kennir sjálfri sér um dauða hans. Í sorginni finnur hún sáluhjáp í þungarokki og dreymir um að verða rokkstjarna.

Málmhaus hlaut ekki færri en átta verðlaun á Edduhátíðinni í ár og hefur verið tilnefnd sem besta norræna myndin á Gautaborgarhátíðinni 2014 og besta alþjóðlega myndin á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Santa Barbara.

Já, Ísland er hluti af Evrópu og hafa fjölmargar íslenskar kvikmyndir á borð við Málmhaus notið stuðnings í gegnum styrktaráætlun Evrópusambandsins fyrir kvikmyndaiðnaðinn, MEDIA, sem Ísland hefur aðgang að í gegnum EES. 

Broken Circle Breakdown

Leikstjóri: Felix van Groening

Elise og Didier verða ástfangin við fyrstu sýn: hún á húðflúrsstofu og hann spilar á banjó í blágresisbandi en þau deila saman miklum áhuga á amerískri tónlist og menningu. Óvænt ógæfa leikur þau grátt og reynir mjög á samband litlu fjölskyldunnar.

Myndin hefur farið sigurför um Evrópu og meðal annars hlotið Lux verðlaunin 2013, áhorfendaverðlaun Berlinale og verðlaun sem besta evrópska myndin hjá