Enn á eftir að ákveða hvenær dýrasta mynd í sögu Suður Kóreu, Snowpiercer, með Hollywood stjörnunum Chris Evans og Tildu Swinton í aðalhlutverkum, og Tómasi okkar Lemarquis í aukahlutverki, verður frumsýnd í Bandaríkjunum, hvað þá á Íslandi …
En þó að ekki sé búið að tryggja frumsýningardaginn í Bandaríkjunum þarf leikstjórinn Bong Joon-ho ekki að hafa miklar áhyggjur, en þessi framtíðartryllir hans fékk fljúgandi start í Suður-Kóreu og hefur sett hvert metið á fætur öðru í miðasölunni þar í landi síðan hún var frumsýnd 1. ágúst sl.
Í meðfylgjandi tveimur myndböndum má sjá fyrst Evans og síðan Swinton,( sem einnig sjást í meðfylgjandi ljósmynd úr myndinni hér fyrir ofan ), ræða um persónur sínar og afhverju þau tóku að sér hlutverk í myndinni.
„Ástæðan fyrir því að ég sló til var að ég vildi vinna með Bong Joon-ho,“ segir Swinton. „Næmi hans fyrir smáatriðum, og húmorinn; Bong Joon-ho er klárlega meistari á okkar tímum. Ég er heppin og stolt að fá að vera með í fjölskyldunni.“
Snowpiercer fjallar um persónu Evans sem leiðir uppreisn í ofurlestinni Snowpiercer, þar sem mennirnir lifa í stéttskiptu samfélagi, eftir að misheppnuð jarðar-hlýnunar tilraun fer úrskeiðis og veldur nýrri ísöld.
Evans leikur eina af óheppnu persónunum sem búa í fátækasta hluta lestarinnar, en Swinton leikur eina af þeim sem lifa við allsnægtir fremst í lestinni.
Bandaríska kvikmyndafyrirtækið The Weinstein Company keypti myndina í nóvember í fyrra, og er að stytta hana um 20 mínútur til að hún henti betur bandaríska markaðnum, eins og við höfum sagt frá áður hér á síðunni.
Aðrir helstu leikarar eru John Hurt, Jamie Bell, Ed Harris, Ewen Bremner, Octavia Spencer, Ko Asung og Kang-ho Song.
Sjáið viðtölin við Evans og Swinton hér fyrir neðan, og takið eftir að það sést í skallann á manni á 24. sekúndu í seinna myndbandinu, sem gæti allt eins verið Tómas Lemarquis, en það eru samt auðvitað getgátur út í loftið!