[„Endurlit“ er glænýr fastur liður þar sem gagnrýndar eru myndir sem eru hvorki í bíó eða á leiðinni í bíó, til að gefa meiri fókus á eldra efni. Ekki spennó?]
ATH. Titill myndarinnar er borinn fram „Si-NEK-do-Kí“
Þegar horft er á kvikmynd skiptir það augljóslega öllu máli hvaða hugarfari þú horfir á hana með, en líka hvaða fólki þú sérð hana með. Upplifunin stýrir þessu og þetta gildir alls ekki bara um þá meðvirku. Ef þú horfir á grípandi karakterstúdíu sem sessunautur þinn flissar stanslaust eða hrýtur yfir þá litast lokaálitið þitt örlítið af leiðindunum. Í ferlega mörg ár taldi ég Eyes Wide Shut vera eina leiðinlegustu mynd sem ég hafði séð, sennilega vegna þess að ég sá hafa upphaflega í vinahópi sem vældi stöðugt um það hversu hæg hún var. Allir hafa lent í þeirri stöðu að láta vont umhverfi eyðileggja fyrir sér ótrúlega góðar bíómyndir. Allir!
Ýmsar myndir gera hlutina aðeins erfiðari fyrir mann (þó manni sé vissulega betur verðlaunað eftirá), til dæmis með því að ætlast til þess að þú njótir hennar ekki bara undir réttum aðstæðum, heldur horfir á hana oftar en einu sinni. Þetta er misjafnt eftir titlum og oft verða flóknar myndir betri því oftar sem þú sérð þær, en það sem ég er að tala um eru sögur sem eru svo efnislega þungar að þú getur ómögulega meðtekið allt í einni setu. Synecdoche, New York tilheyrir hópi kröfuharðra mynda sem maður þarf að sjá að minnsta kosti tvisvar til að hægt sé að botna betur í þeim og lesa á milli línanna. Annars er nú reyndar voðalega lítið í innihaldinu sem þessi mynd á sameiginlegt með öðrum myndum. Hún er einhvers konar einstakt undrabarn… með sérvitran, andfélagslegan persónuleika, sótsvartan húmor og ótakmarkaða þunglyndissýki.
Þetta aumkunaverða undrabarn heitir Charlie Kaufman og Charlie Kaufman er öll þessi mynd. Hann fær auðvitað hjálp frá reyndu fólki í kringum sig (svo sem búningahönnuðum, förðunar- og brellusnillingum) en þegar upp er staðið er þessi mynd eins persónuleg og þær gerast. Kaufman er einn af þessum gaurum sem heimurinn væri verr staddur án; ferskur og flugbeittur handritshöfundur með ómetanlega rödd. Michel Gondry og Spike Jonze verða honum ævinlega þakklátir fyrir að stuða ferlinum þeirra betur í gang.
Styrkleikar Kaufmans liggja í frumlegum, fantasíukenndum hugmyndum (sem, í hnotskurn, meika ekkert „sense“), raunverulegum samtölum, óhefðbundnum uppsetningum og endalausum óútreiknanleika. Þessi maður hefur ýtarlega stúderað lífið út frá vissum sjónarhornum og venjulega eru skilaboðin mörg og merkileg, en hér springur heilabúið út sem aldrei fyrr. Synecdoche, New York djarfasta, metnaðarfyllsta og mest krefjandi Kaufman-myndin til þessa, en það er ekki við öðru að búast þegar karlinn sest í leikstjórasætið í fyrsta sinn. Það segir manni strax að myndin verði algjörlega filterslaus. Hann gefur algjörlega skít í hefðir, reglur og gerir nákvæmlega það sem hann vill og kollurinn leyfir. Ég veit ekki betur en að kvikmyndaformið sé nákvæmlega til þess gert.
Kaufman sýnir ódauðlegt hugrekki með handritinu sínu og höggþétt öryggi í leikstjórasætinu. Það er skrítið að segja það en Synecdoche er klárlega persónulegasta myndin hans, þrátt fyrir að hann hafi skrifað sjálfan sig (og skáldaðan tvíburabróður) inn í aðra mynd sem kom frá honum. En myndin er samt eiginlega OF persónuleg, eða það er allavega ein af mörgum ástæðum af hverju ótrúlega, ótrúlega lokaðir hópar munu kunna að meta hana. Það er heldur enginn millivegur í umtalinu; fólk annað hvort rúllar með myndinni, og þá alla leið, eða myndin mun fjarlægjast þér meira með hverri mínútu áður en hún breytist í þolpróf. Það er hægt að hata myndina og samt sjá eitthvað gott í henni – og öfugt – en almennt er aðeins hægt að elska þetta eða ekki. Er það merki um alvöru list eða týpískt listarúnk?
Synecdoche, New York er reyndar bæði vandað listarúnk og þunglynt listaverk. Það fer allt eftir hvernig þú lítur á þennan lagskipta lauk. Það er aldrei hægt að gera mynd með svona djúpum og útpældum skilaboðum ef hún er ekki tormelt. Synecdoche er stór biti. Mjög stór. Nánast á mörkum þess að vera svo stór að hann stendur í kokinu þínu. En myndin þarf að vera það því annars hefði hún aldrei virkað. Það eiga ekki allir að geta tengt sig við tilfinningarnar eða skilaboðin og ég held að sagan nái best til þeirra sem eiga sér átakanlegar minningar tengdum dauðanum, óryggi eða flóknum samböndum. Maður þarf líka að vera búinn að sjá töluvert mikið af myndum eða lesið mikið af bókum til að geta fullkomlega metið snilldina og geðveikina í handritinu. Og svo sakar ekki að vera með grimman húmor.
Þetta er mynd sem fjallar um að lifa lífinu… frekar dapurlega. En hún er líka um dauðann og allt þar á milli. Þú svona eiginlega ræður því hvað þú sérð út úr henni, en dauðinn er klárlega aðalþemað og myndin gengur út á að fjalla um hann í allri sinni dýrð, hvort sem það er að deyja að innan, upplifa sálarkveljandi samband eða liggja sem rotnandi lík. Kaufman sér samt húmorinn í lífinu líka og hann er ætíð svartur og lítur ekki vel í garð fólks. Þetta eru ekki einhverjir litlir djókar sem fá þig til að skella upp úr, heldur gáfuð og kaldhæðnisleg innskot sem strekkir vel á brosinu ef þú ert farinn að lifa þig inn í myndina.
Þegar þessi grein er skrifuð er ég búinn að horfa á hana fjórum sinnum og stefni ekki í áttina að hætta þar. Í hvert skipti hef ég samt fengið allt aðra mynd. Fyrst þegar ég sá hana var þegar hún var glæný, þá þoldi ég hana ekki. Mér fannst hún alltof niðurdrepandi og sjálfumglöð. Aðalpersónan saug allt lífið úr mér og söguna náði ég ekki að festa mig við þótt hugmyndirnar hafi verið góðar og leikurinn snilld. Ég gafst eiginlega bara upp á sögunni eftir fyrri helminginn þótt ég kláraði vissulega myndina. Þremur árum síðar fékk ég þessa klórandi þörf fyrir að gefa henni annan séns. Hún sat lengur í mér en ég átti fyrst von á og þorði ég greinilega ekki að viðurkenna það. Ég hélt áður að þetta væri fyrsta myndin sem Charlie Kaufman feilar á, en í kringum annað eða þriðja áhorf, smá aukameltingu og djúpar vangaveltur komst ég að þeirri niðurstöðu að þetta er misskilda meistaraverkið hans.
Óskarsverðlaunin reyna oftast ekki að sækja í það að verðlauna leikurum fyrir svona abstrakt myndir en hér hefði í það minnsta mátt splæsa í einhverjar tilnefningar. Það er barnaskapur að segja annað en að þessi mynd sé óaðfinnanlega leikin. Hlutverkin eru líka öll erfið en þyngstu byrðina fær auðvitað snillingurinn Philip Seymour Hoffman. Fengi ég að ráða því myndi ég skipta út Óskarnum sem hann fékk fyrir Capote og afhenda nýjan fyrir þessa mynd í staðinn.
Hoffman er magnaður sem Caden Cotard, einhver mest niðurdrepandi og fráhrindandi persóna sem ég hef séð í mörg, mörg ár í kvikmynd. Athyglisverður er hann þó svo sannarlega og Kaufman er ekkert að leyna því að 80% af hans eigin persónuleika er skrifaður í þennan karakter. Ég get aldrei horft á myndir sem Kaufman skrifar án þess að tengja aðalpersónuna beint við höfundinn sjálfan. Hoffman leikur mann sem reynir að búa til epískt, margslungið og múdí verk sem sýnir lífið eins og það er, án þess að fegra það. Smátt og smátt stækkar striginn töluvert og raunveruleikamörkin skekkjast. Þess vegna má eiginlega segja að Synecdoche, New York fjalli um að búa til verk sambærilegu því sem hún er. Þetta er alls ekki ósvipað Adapation, því þar gekk hún út á sína eigin tilurð, nema þessi grillar á manni heilann miklu, miklu meira.
Myndin er ekki beint raunsæ en hún er ein sú raunverulegasta sem ég hef séð, á mörkum þess að vera *of* raunveruleg. Hún segir manni brútal sannleikann með fýlupúkalegum hætti og það markmið kemur meira að segja beint fram þegar Caden lýsir yfir því hvernig leiksýningu hann ætlar sér að setja upp – og með þessum töluðu orðum fer „plottið“ beint í gang.
Caden er gaur sem þú myndir ALDREI vilja umgangast reglulega og það er athyglisvert að sjá hvernig konurnar í kringum hann breytast úr hressum skvísum í þunglyndar, hrörnandi kellingar þegar þær eru nálægt honum – og það er ekki skrítið heldur! Þessi maður hefur andlega þyngd á við eftirlifanda Helförinnar, eða a.m.k. hegðar sér þannig. Og annað en í mörgum myndum þá er ekki einhver ein kona sem gallaða sögupersónan sækist eftir, heldur nokkrar og yfir ansi langt tímabil. Hver hefur sinn eigin persónuleika og smásögu. Caden tengir sig misjafnlega við hverja og eina. Allt þetta gert á mjög náttúrulegan hátt.
(alvöru New York)
Sambönd fólks geta oft verið margbrotnari en nokkurn tímann er hægt að útfæra á tveimur tímum í skömmtum, en Kaufman kann að skrifa alvöru fólk með eðlileg vandamál. Óaðlaðandi smáatriðin eru ekkert falin heldur. Það er jafnvel hægt að deila um það hvort Caden sé hreinlega alltof gallaður og rotinn karakter til að byrja með. Það er vissulega tilgangurinn en það væri ekki slæmt að sjá einhvern örlítinn sjarma við hann einnig, bara til að geta séð það sem allar þessar konur sjá svona hrífandi við hann. Hann er húmorslaus fitubolla sem m.a. grætur í miðju kynlífi og gengur um með svart, andlegt ský yfir sér. Örlítið ljós í myrkrinu væri ágætlega vel þegið.
(feik New York)
Sambönd Cadens við þessar konur eru öll ólgandi í falinni dýpt og tengslanet þeirra í kringum aðalkarakterinn er einn besti parturinn við myndina. Samskiptin við þessar konur verða líka brenglaðri því lengra sem á söguna líður en öll þýðingarmikil á sinn hátt. Kaufman hefur týnt saman alveg hreint magnaðan hóp af leikkonum. Margar þeirra eru í sterku uppáhaldi hjá mér og hafa verið það lengi (t.d. Michelle Williams, Emily Watson, Samantha Morton og Diane Wiest). Eina leikkonan sem ég fílaði ekkert svakalega var einmitt leikkona sem mér hefur oft þótt furðulega einhæf, sem er Catherine Keener. Litla stelpan sem lék dótturina er einnig alveg ofsalega veikur blettur á myndina. Flutningur hennar á einföldum línum er ósköp gervilegur, eins og aðeins þreytandi barnaleikurum er lagið. Enginn stelur samt þessari mynd betur heldur en Tom Noonan. Það er eitthvað við hann sem gerir allar senurnar með honum svo skuggalega grípandi og áhrifaríkar. Tilgangur hans er líka að vera spegilmynd aðalpersónunnar, eða betri hliðstæða öllu heldur (þ.e.a.s. grannur, heillandi, fyndinn, sjálfsöruggur o.s.frv.). Hann er æðislegur!
Að venju vekur Kaufman upp ýmsar spurningar sem hann vill að þú takir þinn tíma með að svara, frekar en að gefa þér svörin með feitletruðum texta. Synecdoche finnst mér persónulega vera það besta sem hann hefur skrifað ásamt Adaptation. Báðar myndirnar eru líka ákaflega eins, þrátt fyrir að vera gerólíkar í andrúmslofti og skapi. Báðar myndirnar eru algjörar frásagnarflækjur (en augljóslega gerðar þannig viljandi) þar sem félagslega þjáður snillingur reynir að segja óhefðbundna sögu og nær ekki alveg markmiðinu sínu þó svo að ferlið gjörbreyti lífi hans og tilveru. Þarna verður maður eiginlega að spyrja sig hvers konar áhrif sköpunarferli Kaufmans gengur fyrir sig. Einhvern veginn efa ég að þessi maður sé sá hressasti og skemmtilegasti í vinahópnum, út frá verkum hans að dæma. Hreint út sagt held ég nú bara að þessi snillingur sé gangandi fýlusvipur í framkomu og svarthol af svartsýni sem persónuleiki. Merki um alvöru listamann, kannski?
Ég gæti rætt um þessa mynd í marga, marga klukkutíma en orðum þetta bara svona: Þetta er ein besta, mikilvægasta og erfiðasta anti-Hollywood mynd sem ég hef séð. Þetta er eins og troðin geymsla sem flæðir út ef þú opnar dyrnar, en á móti því er hver einasti hlutur áhugaverður og/eða þýðingarmikill. Það er enginn lykill að myndinni og þess vegna er auðvelt að láta hana sigra þig. Hún er þó gjörsamlega opin en samt úthugsuð frá byrjun til enda, hvern myndaramma fyrir sig. Ég hef sjaldan lent í því að tilbiðja kvikmynd sem ég áður fyrr þoldi ekki. En jafnvel ef maður þolir hana ekki, þá er erfitt að hrista þessi óþægindi úr hausnum á sér. Það er jafnvel margt sem ég hata við þessa mynd en því miður tengjast þeir punktar allir persónulegum óþægindum hjá mér og þess vegna elska ég eiginlega þættina sem ég hata. Og ég elska þessa mynd fyrir að hafa vakið upp svona sterkar tilfinningar hjá mér. Ég m.a.s. hringdi í nokkra mína nánustu að henni lokinni. Það kom mér mest á óvart.
(9/10)