Spennumyndin Eiðurinn eftir Baltasar Kormák var vinsælasta kvikmynd ársins 2016 á Íslandi samkvæmt samantekt FRISK, Félags rétthafa í sjónvarps – og kvikmyndaiðnaði. Önnur vinsælasta myndin var ofurhetjumyndin Suicide Squad og í þriðja sæti lenti Stjörnustríðsmyndin Rogue One: A Star Wars Story.
Í frétt FRISK segir að á árinu 2016 hafi samtals 1.420.435 manns sótt íslensk kvikmyndahús sem er aukning um 2,74% frá árinu 2015. „Þess má geta að árið 2015 var í fyrsta skipti í fimm ár sem aukning var í aðsókn á milli ára í íslensk kvikmyndahús og hefur hún því aukist í tvö ár í röð, sem er einkar ánægjulegt. Enn er þó langt í land að hún nái metárinu 2009 þegar tæp 1,7 milljón manns fór í kvikmyndahús.“
Heildartekjur af kvikmyndasýningum í íslenskum kvikmyndahúsum var kr. 1.689.720.455 og er það hækkun upp á 8,9% í tekjum frá árinu 2015. Hver Íslendingur fór 4,27 sinnum í bíó á árinu og enn og aftur eru Íslendingar í hæstu hæðum þegar kemur að bíóaðsókn í heiminum.
Íslensk mynd efst í annað sinn á þremur árum
„Það er gaman að segja frá því að vinsælasta mynd ársins var Eiðurinn og er þetta í annað sinn á þremur árum sem íslensk mynd trónir á toppnum í íslenskum kvikmyndahúsum. Árið 2014 var það Vonarstræti. Þá má geta þess að Íslendingar komu líka við sögu á vinsælustu mynd ársins 2015, Everest, og var það jafnframt í annað sinn sem sami leikstjóri (Baltasar Kormákur) átti vinsælustu mynd ársins tvö ár í röð, en áður var það James Cameron þegar Avatar var vinsælasta myndin 2009 og 2010. Baltasar hefur í raun fjórum sinnum leikstýrt vinsælustu mynd ársins (Eiðurinn, 2016, Everest 2015, Mýrin 2006 og Hafið 2002).“
Tekjur af Eiðnum voru tæpar 64 milljónir og alls komu tæp 47 þúsund manns í kvikmyndahús til að sjá myndina. Næstvinsælust var svo kvikmyndin Suicide Squad með 57 milljónir í tekjur og nýjasta Star Wars myndin, Rogue one, sem var að hluta tekin upp hér á landi, raðaði sér í þriðja sætið með 56,7 milljónir í tekjur. Þess má einnig geta að síðustu tvær Star Wars myndirnar, The Force Awakens (frumsýnd 17. des. 2015) og Rogue One (frumsýnd 16. des. 2016), eru þegar upp var staðið tekjuhæstu myndirnar sem frumsýndar voru á viðkomandi ári.
Heildarmiðasala á The Force Awakens endaði í tæpum 113 milljónum króna, sem gerir hana að tekjuhæstu mynd sem frumsýnd var á árinu 2015 og annarri tekjuhæstu mynd allra tíma (eða frá því staðfestar mælingar hófust árið 1995). Rogue One er komin í tæpar 68 milljónir og er því strax orðin tekjuhæsta myndin sem frumsýnd var á árinu 2016.
Lista yfir tuttugu vinsælustu kvikmyndirnar á árinu 2016 má sjá hér að neðan. Þess má geta að vinsældum mynda er ávallt raðað eftir tekjum en ekki aðsókn.
Í frétt FRISK segir ennfremur að frumsýndar kvikmyndir á árinu voru samtals 179 sem er sami fjöldi og á árinu 2015. Frumsýndar íslenskar kvikmyndir og heimildarmyndir voru 15 á árinu, sem er tveimur myndum fleiri en á árinu 2015. Eins og áður segir var kvikmyndin Eiðurinn þar langvinsælust en kvikmyndin Grimmd kom þar á eftir með tæpar 17,5 milljónir í tekjur og þar á eftir Fyrir framan annað fólk með rúmar 14,6 milljónir í tekjur. Vinsælasta heimildarmynd ársins var svo Jökullinn logar sem halaði inn rúmar 4,2 milljónir í kvikmyndahúsum í kringum Evrópukeppnina síðastliðið sumar. Samtals var hlutfall íslenskra kvikmynda og heimildarmynda í kvikmyndahúsum 6,6%, sem er aukning frá árinu 2015 þegar íslenskar myndir voru tæp 4,8% af markaðnum.
Vinsælasta kvikmyndin vestur í Bandaríkjumum var Finding Dory en sú mynd var jafnframt sú áttunda vinsælust á Íslandi. Hlutfall bandarískra kvikmynda í íslenskum kvikmyndahúsum var óvenjuhátt á árinu 2016 eða 90% í bæði tekjum og aðsókn. Á árunum 2014 og 2015 var hlutfall bandarískra kvikmynda í kringum 85%