Enn og aftur hefur hópur íslenskra bíómynda öðlast nýtt eintak sem fellur í flokkinn þar sem eingöngu er hægt að dást að vinnubrögðunum frekar en að festast í innihaldinu. Tengingarleysi áhorfandans við allt sem gerist á skjánum í Frost er gjörsamlega ruglað og sennilega er öruggt að undirstrika það að þetta er ein metnaðarfyllsta klakaframleiðsla sem sést hefur á grunnhugmynd sem er ósköp frosin á metnaði. Hana langar til að vekja upp ósvikinn (kulda)hroll en áður en langt um líður er kjánahrollurinn nær. En það er að vísu ekki fyrr en eftir að maður jafnar sig á hausverknum og pirringnum.
Myndin virðist hafa ranghugmyndir um að hún hafi eitthvað nýtt fram að færa í svokallaða „found footage“ geirann, en það gerir hún bara ef áhorfandinn hefur aldrei séð slíka bíómynd áður. Efnislega er hún í tómu tjóni í klisjum og „been there, done that“ deildinni, en undantekningin er í útlitinu. Mest græðir Frost á landslaginu og trúverðugleikanum eftir að hafa skotið útisenurnar á alvöru jökli og í ljótu óveðri þar að auki. Það eru ýmis skot í myndinni sem eru ótrúlega flott, nokkur á meðal þeirra aðdáunarverðustu sem ég hef séð í íslenskri bíómynd, en ef kvikmyndagerðarfólk ætlar að leggja það á sig að ganga í gegnum svona króknandi viðbjóð í þágu listarinnar, þá er eins gott að myndefnið eigi sér langt líf í einhverju framúrskarandi verki.
Úps?
Kannski er maður bara svona litaður eftir að séð hversu skemmtilega hluti er hægt að gera við þetta format (sbr. Rec-myndirnar, Chronicle eða Trolljegeren) en fyrir utan eintómu ísinguna er ekkert að finna í Frost sem ekki er hægt að kalla rútínubundið. Persónurnar eru kynntar, eitthvað kemur upp á og fljótlega breytist skjárinn í rússíbana flogaveikra. Ljós blikka, kameran sturlast í ofvirkum hreyfingum og móðukenndum fókus en burtséð frá því er lítið að gerast í seinni helmingnum annað en leikarar að hrópa „Halló, halló! Er einhver þarna!?“ eða „hvað er í gangi?!“
Tökum Blair Witch, Open Water og mixum þeim aðeins upp með hugmyndum úr The Thing. Ég hefði hrósað myndinni fyrir glæstan frumleika ef hún hefði komið út fyrir árið 1999, en napur ferskleiki hefði aðeins getað bjargað x miklu. Reyndar neyðist ég til að hrósa aðalleikurunum tveimur ofsalega mikið. Björn Thors og Anna Gunndís eru þau sem selja manni atburðarásina alveg, sem er frábært, því þegar ekkert gerist í bíómynd er eins gott að hún sé vel leikin. Línurnar í handritinu eru stundum hálfþvingaðar en parið virðist kunna að bæta það upp með kammó, hversdagslegum sjarma. Án þessara leiktilþrifa hefði found footage nálgunin verið óbærileg. Hins vegar á það líka við um leikaranna að þeir bjargi bara x miklu þegar upp er staðið. Helsti vandinn við myndina í heild sinni er að hún er að öllu leyti ófullnægjandi sem hrollvekja og/eða þriller, hvort sem hún þykist vera. Ef hún á að vera þriller, þá hélt hún mér aldrei spenntum. Ef hún ætlar sér að vera (kjána)hrollvekja, þá nær hún einungis því markmiði að bregða manni í nokkur skipti með miklum hávaða, en bara þegar hún er ekki að reyna að fríka þig út með skondnum hljóðum.
Það er rétt aðeins daðrað við áhugaverðar hugmyndir. Allan tímann hélt ég að myndin væri að byggja upp eitthvað massívt. Ég bjóst við svörum, bjóst við drama, bjóst við lokakafla sem myndi réttlæta óspennandi fyrri hlutann. Ekkert af þessu skilaði sér. Fyrsti þriðjungur myndarinnar er skástur ef hann er metinn sem inngangur en ekki sem partur af meginmálinu, sem hann í rauninni er. Allur miðkaflinn (og meirihluti endasprettsins) hefur ótrúlega sterkan “set-up” fíling við sig. Áhugi minn dó aldrei því ég beið spenntur eftir áfangastaðnum. Síðan tekur myndin allt í einu upp á þeirri snilldarhugmynd að losa sig við heimildarstílinn. Þetta leist mér frábærlega á því ég vonaðist til að sjá leikstjórann og handritshöfundinn fara loksins í almennilegar, nýjar áttir með efnið. En nei nei, þetta er aðeins einhver klúðurslegur eftirmáli og upphafið að alversta partinum við myndina: öllum endinum.
Síðustu senurnar skilja eftir viðbjóðslegt, biturt eftirbragð. Þessar 5-10 mínútur (frá því þegar myndin skiptir yfir í eðlilegan tökustíl) eru jafnslæmar og Hrafnar, sóleyjar og myrra var í allri sinni dýrð – nema ég hló ekki eins mikið. Kaldhæðnislega er Frost alveg nógu þreytandi fyrir þegar fyrstu persónu-stíllinn er í gangi. Hristingurinn verður svo ofnotaður, sem er sérstaklega óþægilegt á stórum skjá, eins og það sé verið að fela það hve tómar senurnar eru og hve ódýr spennan er. Pixlaðir lagg-effektar eru ákaft notaðir til að fá þá sem hræðast auðveldlega til að háma í sig fingurneglurnar. Þegar endirinn byrjar skín það best í gegn að Reynir Lyngdal stillir upp alvarlegum atriðum eins og þetta sé paródía á drungalega evrópska þrillera. Grínið leit allavega út fyrir að virka, til dæmis þegar ég sá hvernig Elmu Lísu (eiginkonu Reynis) tókst að menga skjáinn með frammistöðu sem gaf orðinu ósannfærandi nýja og nákvæmari merkingu. Reyndar voru allir slakir í seinustu senunum (m.a.s. krúttið hún Anna). Elma var samt mest áberandi léleg. Og hún á ekki nema nokkrar setningar! Ekki kúl, Reynir. Ekki kúl.
Þá ætla ég að biðja núna lesandann um að taka skot í hvert sinn sem vísað er í kulda í þessari umfjöllun (titillinn talinn með!) og þá er bókað að hann fái meiri ánægju akkúrat hér og nú í stað þess að leggja í þetta svellkalda sull og borga fyrir það að horfa á fólk vera andlega áttavillt, kúgandi og deyjandi úr hræðslu. Áhorfandinn finnur í staðinn fyrir þessum sömu tilfinningum, fyrir utan náttúrlega þessari seinustu, sem skiptir langmestu máli. Ég sé þess vegna ekki betur en að leiðin til að bjóða fólki upp á þessa mynd án þess að það verði frussandi úr pirringi eftirá er að leyfa henni að fylgja ókeypis með pylsupakka.
(3/10)