Ófáum unnendum Harry Potter-kvikmyndanna var brugðið þegar breski leikarinn Rupert Grint varpaði fram sturlaðri staðreynd um sjálfan sig. Svo herma að minnsta kosti heimildir galdraheimsins en netheimastormurinn hófst þegar Grint var staddur í viðtali við Variety og var þar spurður um tengsl sín og minningar bakvið tjöld myndabálksins stórfræga.
„Ég horfði bara á fyrstu þrjár [bíómyndirnar], örugglega þegar þær voru frumsýndar. Síðan hætti ég að horfa á þær,“ sagði Grint í viðtalinu.
Kvikmyndirnar í seríunni eru átta talsins, að ótöldum tveimur (bráðum þremur) Fantastic Beasts-myndum, og hafa notið gífurlegra vinsælda um heim allan, auk þess að hafa hlotið flestar frábæra dóma og hlýjar viðtökur áhorfenda sem unnenda – að mestu.
Má geta þess einnig að streymisveitan HBO Max er að undirbúa glænýja sjónvarpsseríu um töfradrenginn fræga. Þegar umrædd sjónvarpssería kom til tals sagðist Grint þykja ólíklegt að hann verði beðinn um að taka þátt en almennt ber hann hlýjar tilfinningar til persónunnar Ron Weasley og tíu ára tökutímabils myndanna.
Grint segir þó vera óhjákvæmilegt að klára kvikmyndabálkinn áður en langt um líður. „Nú á ég dóttur og mun að öllum líkindum þurfa að horfa á þær með henni,“ bætti hann við.
Leikarinn fór ekki nánar út í ástæðuna hvers vegna hann lagði aldrei í afganginn á seríunni. Hafa þó ýmsir netverjar og miðlar dregið þá ályktun að Grint tilheyri hópi leikara sem horfa einfaldlega aldrei á eigin verk eða frammistöðu. Góðkunnugt fagfólk eins og Meryl Streep, Jared Leto, Jesse Eisenberg, Julianne Moore og fleiri eru í þeim báti.