Bergmál eftir Rúnar Rúnarsson, sem frumsýnd verður hér á Íslandi þann 22. nóvember nk., hlaut í gær aðalverðlun dómnefndar unga fólksins við hina virtu kvikmyndahátíð í Locarno í Sviss.
Í tilkynningu frá framleiðendum kvikmyndarinnar, segir að Rúnar hafi í ræðu sinni þakkað dómnefndinni traustið og hafi sagst einstaklega stoltur af að taka við verðlaununum fyrir hönd þeirra hundruða einstaklinga sem að myndinni komu.
Kvikmyndin var heimsfrumsýnd á Locarno hátíðinni fyrir viku síðan, og hlaut hún samkvæmt tilkynningunni standandi lófaklapp í FEVI, þrjú þúsund manna kvikmyndahúsi í Locarno.
Bergmál hefur samkvæmt tilkynningunni fengið góðar viðtökur gagnrýnenda og áhorfenda, en vegna mikillar aðsóknar og áskorana frá áhorfendum var sýningum bætt við á myndinni á hátíðinni.
“Nógur var heiðurinn fyrir Bergmál að hafa komist í gegnum nálaraugað við að vera valin á þessa mikilvægu hátíð en nú er maður hálf orðlaus, okkur hefði aldrei þorað að dreyma um þvílíka byrjun fyrir myndina okkar” Sagði Rúnar leikstjóri Bergmáls.
Síðan “Síðasti Bærinn” var tilnefnd til Óskarsverðlauna árið 2006 hafa kvikmyndir Rúnars ferðast um helstu hátíðir heimsins (Cannes, Toronto, Sundance, San Sebastian m.a. ) og unnið yfir 130 alþjóðleg kvikmyndaverðlaun.
“Bergmál er listrænt djörf en á sama tíma einstaklega falleg og manneskjuleg mynd sem sameinar svo margt. Húmor, sorg og fegurð. Íslensk Jólamynd” sagði Lilja Snorradóttir framleiðandi í tilkynningunni.