Disney mun opna Avatar skemmtigarð

Ekki er nóg með að James Cameron er að útbúa Avatar framhöldin tvö, heldur hefur hann nú gert samning á heimsvísu við Walt Disney Parks um að opna skemmtigarða í nafni myndanna. Sá fyrsti verður opnaður í Disney World í Orlando, Flórída frá og með árinu 2013 en seinni Avatar myndin er væntanleg um jólin 2014 og sú þriðja ári síðar.

Samkvæmt fréttatilkynningunni frá Disney mun garðurinn gera gestum kleift að „kanna hinn dularfulla heim Avatar að eigin reynslu.“ „James Cameron er byltingakenndur kvikmyndagerðamaður og hæfileikaríkur sögusmiður sem deilir ástríðu okkar þegar kemur að sköpunargáfu og tæknilegri nýsköpun,“ sagði forstjóri Disney, Robert A. Iger einnig í fréttatilkynningunni.

Í viðtali við Wall Street Journal fyrr í vikunni lýsti Cameron áhuga sínum á að taka næstu tvær Avatar myndirnar upp í 48 eða 60 römmum á sekúndu: „Fyrir Avatar 2 hef ég mestan áhuga á að kvikmyndahús uppfæri ljósaaðstöðuna þeirra. Við viljum taka myndina upp í 48 eða jafnvel 60 römmum á sekúndu og sýna hana á þeim hraða, sem mun útiloka mörg vandamál sem að fólk glímir við.“

Í augnablikinu er aðeins ein staðsetning staðfest fyrir skemmtigarð en eins og áður var sagt gildir samningurinn um heimsvísu og tekur Disney ákvörðun þegar nær að dregur.

Stikk: