Eftir að hafa sagt lauslega og mjög óformlega frá fundi sem hann átti með yfirmönnum framleiðslufyrirtækisins Marvel í október sl., þá hefur Ryan Reynolds, aðalleikarinn í Deadpool myndaflokknum, nú, að því er virðist, staðfest að Deadpool 3 sé í vinnslu hjá Marvel Studios.
Þetta gerði leikarinn í sjónvarpsþættinum Live With Kelly and Ryan nú um Jólin.
„Við erum að vinna að henni með öllu teyminu,“ sagði Reynolds þegar hann var spurður hvort að fólk mætti eiga von á að fá að sjá kjaftforu andhetjuna Deadpool á ný, í Deadpool 3. „Við erum úti í Marvel núna, þar sem er allt í einu allt að gerast. Það er hálf klikkað.“
Óvíssa ríkti
Rétturinn að Deadpool myndunum fór til Disney og Marvel eftir að fyrirtækin keyptu framleiðslufyrirtækið gamalgróna 20th Century Fox fyrr á þessu ári. Þó að alltaf hafi verið búist við að Marvel væri að velta fyrir sér að endurræsa bæði X-Men og Fantastic Four ofurhetjuflokkana, inni í Marvel kvikmyndaheiminum, þá hefur ríkt ákveðin óvissa með hvort að Deadpool serían myndi lifa af í núverandi mynd – en nú virðumst við hafa fengið svar við því loksins.