Eftir langa baráttu um réttinn til að gera kvikmynd eftir tölvuleiknum Dead Island, hefur Lionsgate Entertainment staðið uppi sem sigurvegarinn og hyggst gera mynd byggða á leiknum. Leikurinn kom út í byrjun septembers og rifust þá þeir Sean Daniel og Jason Brown við Union Entertainment um það hver héldi í raun réttinum. Nú mun Daniel (sem framleiddi m.a. The Mummy seríuna) ásamt Stefan Sonnenfeld framleiða myndina en líklega verður hún ekki eins bókstafleg ‘Dead Island-kvikmynd’ og fólk gæti haldið.
Fyrst, fyrir þá sem ekki vita, þá fjallar leikurinn um hóp af fólki sem festist á paradísa-eyjunni Banoi eftir að uppvakningafaraldur brýst út. Þar þurfa þau að verjast með hvaða aðferðum sem er og vonandi finna leið af eyjunni.
Það kom í ljós að þetta var ansi líflegur leikur á tímum og snérist að miklu leiti um að skemmta leikmanninum, sem er allt í lagi ef þú lítur á hann sem enn einn ‘zombie-leikinn’. Hins vegar voru væntingar aðrar þegar hann var fyrst tilkynntur (eins og má sjá af fyrstu stiklunni sem var gefin út, hér fyrir neðan) og var búist við drungalegum og dapurlegum leik sem myndi færa þessa tegund leikja á hærra plan. Svo varð nú ekki en það virðist sem að framleiðendur verðandi-myndarinnar vilji frekar fara í sömu átt og stiklan, samkvæmt Lionsgate: „Eins og hundruðir fréttamanna og milljónir aðdáenda sem voru svo ástríðufullir yfir Dead Island stiklunni, vorum við lika gagnteknir. Þetta er einmitt þannig verkefni sem við hjá Lionsgate viljum taka að okkur, það er fágað, ögrandi og sönn upplyfting þeirrar tegundar sem við öll þekkjum og elskum.“
Reyndar eru svona fregnir oftast of góðar til að vera sannar, þar sem einn af framleiðendum myndarinnar, Joe Drake, bætti við að verkefnið hentaði einnig svo vel þar sem það býður upp á þann möguleika að gera seríu.