Damo Suzuki leikur undir Metropolis á RIFF

Damo Suzuki, fyrrum söngvari súrkálssveitarinnar CAN, verður sérstakur gestur RIFF í haust. Suzuki kemur hingað í tilefni þess að Þýskaland er í kastljósinu hjá hátíðinni að þessu sinni. Hann flytur tónlist undir kvikmynd Fritz Lang, Metropolis, frá 1927. Kvikmyndatónleikarnir fara fram í Gamla bíói 3. október nk. Auk þess sýnir RIFF mynd um tónleikaferðalag Damo Suzuki um Bandaríkin árið 1998, Over the Air í leikstjórn Peter Braatz.


Damo Suzuki var söngvari CAN á árunum 1970-1973, meðan sveitin gerði frægustu plötur sínar eins og Tago Mago og Ege Bamyasi. Damo gekk í hljómsveitina eftir að tveir stofnmeðlimir hennar heyrðu til hans „böska“ utan við kaffihús í München. Sama kvöld kom hann fram á fyrstu tónleikum sínum með sveitinni. CAN hefur haft gríðarlega mikil áhrif á tónlistarsöguna allt frá stofnun sveitarinnar árið 1968 og er jafnan nefnd lykilsveit hins svokallaða „krautrokks.“ Tónlistarmenn eins og David Bowie, Brian Ferry, Brian Eno og John Frusciante  hafa talað um hana sem mikinn áhrifavald.

Að mati Damo á kvikmynd Fritz Lang, Metropolis frá árinu 1927, enn mikið erindi við nútímann. Hann valdi því að flytja tónlist við hana, en myndin hlýtur að teljast eitt mesta meistaraverk kvikmyndasögunnar og lykilverk þýska expressjónismans. Myndin gerist í fjarlægri framtíð (2026) þar sem forríkir gáfumenn kúga lýðinn. Sonur borgarstjórans verður hugfanginn af stúlku af lægri stéttum sem spáir fyrir um komu frelsara sem muni losa verkalýðinn undan kúguninni.

Miðasala á tónleikana er hafin á heimasíðu hátíðarinnar: www.riff.is.

Stikk: