Eftir að hafa lesið dulin skilaboð í gegnum tilfinningatákn og broskalla í tölvunni, þá uppgötva taugaveiklaðir foreldrar að unglingsdætur þeirra, sem eru að fara á útskriftarballið, hafa gert með sér leynilegt samkomulag um að missa meydóminn.
Um þetta fjallar gamanmyndin Blockers, en þó að þetta efni sé margtuggið í bandarískum bíómyndum í gegnum árin, þá er broskallavinkillinn nýr að segja má.
Með helstu hlutverk fara Leslie Mann, John Cena og Ike Barinholtz.
Upphaflega hét myndin The Pact, eða Sáttmálinn. Þau Mann, Cena og Barinholtz hafa í sameiningu fylgst með dætrum sínum vaxa úr grasi, og aldrei látið sér detta annað í hug en að þau gætu tryggt öryggi þeirra alla leið. En núna, þegar útskriftarballið nálgast, þá komast þau að fyrrnefndu leynisamkomulagi. Nú vilja þau gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að dætrunum takist ætlunarverkið. Það má segja að þau gangi ansi langt eins og sést í fyrstu stiklunni úr myndinni, meðal annars lætur fjölbragðakappinn og Trainwreck leikarinn John Cena dæla bjór inn um óæðri endann á sér.
Pitch Perfect handritshöfundurinn Kay Cannon leikstýrir, og handrit skrifa þau Brian og Jim Kehoe, Jon Hurwitz og Hayden Schlossberg og Eben Russell.
Myndin er væntanleg í bíó hér á Íslandi 6. apríl á næsta ári.
Kíktu á stikluna hér fyrir neðan: